Pálmi Ragnar Pálmason
1940 – 2025

Ég kynntist á seinnihluta ævinnar tveimur af börnum Pálma rektors, þeim Ingibjörgu Ýr sem gift var Indriða Gíslasyni frá Skógargerði og Pálma Ragnari sem nú er látinn. Faðir þeirra Pálmi rektor (1898-1956) var snemma stórt nafn í mínum huga sem náttúrufræðings og landkönnuðar.

Sonurinn Pálmi Ragnar  var verkfræðingur og starfaði lengst af hjá Verkfræðistofu Sigurðar Thoroddsen. Úr þeim hópi kynntist ég snemma Kristjáni Má Kristjánssyni verkfræðingi og konu hans Kristínu Einarsdóttur líffræðingi, síðar alþingismanni. Þau voru í tvo áratugi, 1985-2005, ásamt fleirum félagar okkar hjóna í Litla ferðafélaginu sem efndi til vikulangra ferða um hálendið á hverju sumri. Eftir skilnað Pálma við  Ágústu fyrri konu sína gerðist hann 1993 þátttakandi í félagsskapnum, sem það sumar efndi til gönguferðar á fjallið Kerlingu (1338 m) við vestanverðan Vatnajökul. Árið eftir lá leiðin um Lónsöræfi fram með jöklinum austanverðum og norður í Fljótsdal og 1996 um Strandir vestra að Drangajökli. Ári síðar, 1997 hafði Eygló Guðmundsdóttir, brátt eiginkona Pálma, bæst í hópinn sem gekk þá yfir Hraun eystra á Hornbrynju. Upp frá því voru þau fastir þátttakendur í gönguferðunum. Samfylgdin með þessum fríska hópi var eftirminnileg frá ári til árs og Pálma verður lengi minnst fyrir glaðværð og góða eldamennsku.

Náttúra Íslands stóð hjarta Pálma Ragnars nær eins og föður hans og flestra sem henni kynnast í reynd með opnum huga og leggja land undir fót. Honum og Eygló þökkum við Kristín kona mín fyrir samfylgdina.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim