Ragnar Arnalds
1938‒2022

Með Ragnari Arnalds er fallinn frá einstaklingur sem setti svip á stjórnmálaþróun hérlendis í nær fjóra áratugi og raunar lengur þegar með er talin formennska hans í Heimssýn, almannasamtökum gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Jafnframt lagði hann fram drjúgan skerf til menningarmála sem rithöfundur og leikritaskáld, sem eftir var tekið.
Ég hitti Ragnar í millilandasiglingu sumarið 1955 en kynntist honum fyrst að ráði áratug síðar þegar tekist var á um framtíð vinstri flokka hérlendis. Hann var þá orðinn þingmaður Norðurlandskjördæmi vestra, aðeins hálfþrítugur að aldri.

Þegar Alþýðubandalaginu var breytt úr kosningabandalagi í formlegan stjórnmálaflokk haustið 1968 var góð samstaða um Ragnar sem formann og því starfi gegndi hann með prýði næstu 9 ár. Árin 1971-1974 var við völd vinstri stjórn sem m.a. færði landhelgina út í 50 mílur. Um það leyti var gengið frá stefnuskrá Alþýðubandalagsins. Gerði Ragnar ágæta grein fyrir henni í riti miðstjórnar 1975 og rakti þar jafnframt forsögu flokksins. Í stefnuskránni var sérstakur kafli um auðlindir og umhverfisvernd og einnig mótaði Alþýðubandalagið um svipað leyti víðtæka orkustefnu fyrst íslenskra stjórnmálaflokka. Var hún afrakstur nefndar sem við Ragnar áttum sæti í.

Sigur Alþýðubandalags og Alþýðuflokks í kosningum til Alþingis 1978 leiddi til myndunar vinstri stjórnar undir forsæti Ólafs Jóhannessonar. Hún varð skammlíf vegna ósættis og klofnings í Alþýðuflokknum. Eftir alþingiskosningar í desember 1979 varð til ríkisstjórn undir forsæti Gunnars Thoroddsens sem sat til vors 1983. Í báðum þessum ríkisstjórnum skipaði Ragnar ráðherrasæti fyrir Alþýðubandalagið ásamt okkur Svavari Gestssyni. Ragnar var fyrst mennta- og samgönguráðherra, en í síðari stjórninni fjármálaráðherra. Hlaut hann víðtæka viðurkenningu fyrir vönduð og skilvirk störf, þrátt fyrir erfiða stöðu vegna mikillar verðbólgu. Ágætt samstarf okkar skilaði mörgu, í kjördæmi Ragnars m.a. ákvörðun um Blönduvirkjun og Steinullarverksmiðju sem enn starfar á Sauðárkróki.

Ragnar lét sér allt sem snerti sjálfstæði Íslands miklu skipta. Hann varaði eindregið við aðild Íslands að EES og Evrópusambandinu og var vorið 2002 í hópi frumkvöðla að stofnun Heimssýnar, þverpólitískra samtaka sjálfstæðissinna í Evrópumálum. Var hann formaður Heimssýnar um 7 ára skeið. Það er því langsótt að bendla nafn Ragnars við Samfylkinguna, sem fyrst varð til sem stjórnmálaflokkur eftir að hann lauk þingsetu. Ragnar gekk þá fljótlega til liðs við VG þar sem við beittum okkur ásamt fjölmörgum eindregið gegn aðildarumsókn Jóhönnustjórnarinnar að ESB 2009–2013.

Listhneigð Ragnars fékk ótvíræðan styrk með hjónabandi hans og Hallveigar, sem einnig er rithöfundur og þekkt fyrir brúðuleikhúsið Sögusvuntan og mörg fleiri verk. Heimili þeirra, jafnt í Varmahlíð og syðra, endurspeglaði fjölþætta menningu sem þau hafa miðlað landsmönnum nær og fjær.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim