Reynir Zoëga
1920–2016

Það er til einhvers að ná háum aldri með þá heilsu andlega og líkamlega sem Reyni Zoëga var gefin fram undir það síðasta. Ég frétti af honum nálægt níræðu hjólandi um hringveginn og þess á milli í hefðbundnum göngutúrum með Þórði M um Neskaupstað og nágrenni. Ég minnist Reynis fyrst sem áheyrandi á fundum bæjarstjórnar Neskaupstaðar 1964, en þar átti hann sæti sem fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í tvo áratugi, yfirvegaður og málefnalegur og af sumum talin vænleg varaskeifa fyrir meirihluta Alþýðubandalagsins ef illa færi í kosningum. Síðan hitti ég hann tíðum sem verkstjóra hjá Dráttarbrautinni, útsjónarsaman og ráðagóðan. Starfsmenn á verkstæðinu fóru árlega í skemmtiferð upp á hálendið, og þótti sú best þegar hópurinn rataði í tvísýnar raunir með bílakostinn. Eftir að ég eignaðist Landrover 1968 og hugsaði til hálendisferða, einbíla í grasaleit, var sjálfgefið að leita ráða hjá Reyni. Hann útbjó hugvitsamlegan búnað á jeppann þannig að unnt væri að draga hann upp úr hvaða vilpu sem væri á eigin vélarafli. Á þetta reyndi blessunarlega aldrei, svo að Reynir tekur patentið ónotað með sér í gröfina.
            Ég komst fljótt að því að Reynir bar mikla virðingu fyrir umhverfinu og afsannaði með því  fullyrðingar um að tæknilærðir menn kynnu sér ekki hóf í samskiptum við móður náttúru. Þegar kom að stofnun Fólkvangs Neskaupstaðar um 1970 reyndist hann traustur liðsmaður og leiðbeindi mér síðar um örnefni í grennd bæjarins. Byggðarlaginu unni hann og lagði því lið, m.a. í Sparisjóði Norðfjarðar þar sem hann var stjórnarformaður í áratugi. Sem kennari kynntist ég foreldrunum Reyni og Sigríði, sem létu sér mjög annt um nám barna sinna. Svo fór löngu síðar að sonardætur þeirra, þær Guðný og Bryndís Zoëga, urðu mér haldreipi í forminjagrúski víða austanlands. Á þeim hefur mér þótt sannast orðtækið um eplið og eikina.

Hjörleifur Guttormsson
17. september 2016


Til baka | | Heim