Sævar Sigbjarnarson
1932–2019

Sævar verður eftirminnilegur öllum sem honum kynntust. Hann hafði vasklega framgöngu, var rómsterkur og skýrmæltur, ágætur upplesari og tók sig vel út á sviði. Hann ólst upp yngstur í stórum systkinahópi á ættaróðalinu Rauðholti og þar varð búskapur hans helsta ævistarf með glæsilegri eiginkonu sem hann missti langt fyrir aldur fram eftir að hafa komið upp myndarlegum hópi fimm afkomenda. Eina dóttur átti Sævar fyrir, en hún fórst af slysförum.

Kynni okkar Sævars hófust á sjöunda áratug liðinnar aldar, tengd félagsmálum á vinstri væng stjórnmálanna og við bættist frændsemi að langfeðgatali og sameiginlegur áhugi á náttúru og umhverfi Úthéraðs. Sævar leiddi framboð Þjóðvarnarflokksins í Norður-Múlasýslu á alþingikosningum 1956 og þaðan lá leiðin í Alþýðubandalagið þar sem hann gerðist ötull liðsmaður. Oddvitastarfi gegndi hann af mikilli alúð í heimasveitinni Hjaltastaðaþinghá og sinnti í víðara samhengi ýmsum félagsmálum á Héraði þar sem hann átti sæti í stjórnum samtaka og menningarstofnana..

Sævar var prýðilega ritfær, skrifaði greinar jafnt um heimamál og alþjóðamál og átti þess utan létt með að yrkja. Stærsta framlag hans á ritvellinum var Rauðhyltingabók sem kom út árið 2005. Þar fór hann með ritstjórn og lagði til mikið efni ásamt með ættmennum sínum.
 
Eftirminnileg er mér ferð með Sævari upp í Hraundal inn af Beinageitarfjalli síðsumars 2006 til að kanna þar byggðaleifar. Hann var þá enn frískur til gangs og í veðurblíðu gengum við fram á fornar rústir sem enn bíða þess að vera kannaðar til hlítar. Leið okkar lá skammt frá Stakahjalla þar sem hagyrðingurinn annálaði, Einar Jónsson, forfaðir Rauðhyltinga, byggði upp á eldri rústum árið 1844. Sonur Einars á Hjalla og Ingibjargar frá Hrjót var Sigurður sem gerðist bóndi í Rauðholti 1889. Nú býr þar fjórði ættliðurinn Sigbjörn góðu búi líkt og bróðir hans Hafliði í Fossárdal. Líffræðingurinn Líneik hefur lengi lagt gott til félagsmála, m.a. sem stjórnarformaður Náttúrustofu Austurlands, og nú sinnir hún landsmálum á Alþingi.

Við Kristín kveðjum Sævar með hlýhug og virðingu.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim