Sigrún Ágústsdóttir
1942‒2019

Eini einkaritari minn á lífsleiðinni, Sigrún Ágústsdóttir, hefur kvatt í kyrrþey eftir erfiðan síðasta kafla á langri ævi. Við kynntumst haustið 1978 fáum vikum eftir að ég lenti að heita má fyrirvaralaust inn í ráðherrastarf og tók þar við iðnaðar- og orkumálum. Sérstakt ráðuneyti iðnaðarmála varð fyrst til árið 1970 og höfðu tveir ráðherrar, Magnús Kjartansson og Gunnar Thoroddsen, sinnt málaflokknum ásamt félagsmálaráðuneyti og höfðu skrifstofu í því síðarnefnda. Það var því byrjað á að umbylta húsakynnum á 3. hæðinni í Arnarhvoli til að koma þar fyrir ráðherra iðnaðarmála ásamt með ritara. Við Sigrún settumst þar að störfum við góðar aðstæður síðla septembermánaðar, hún með skrifstofu til hliðar við biðstofu og tók þar á móti gestum og gangandi. Hún hafði áður starfað um árabil á lögfræðiskrifstofu Ragnars Ólafssonar, en eiginmanninn Bessa jarðfræðingi hafði ég hitt austanlands nokkrum árum fyrr, þar sem hann var með þeim fyrstu til að lesa í aðstæður í grennd Kárahnjúka. Með Sigrúnu hófst eftirminnilegt samstarf sem aldrei bar skugga á og stóð með stuttu hléi í hartnær 5 ár. Hún bar með sér einstaklega trausta og  ljúfa lund með glaðværa framgöngu og lipurð sem aldrei brást í flóknum samskiptum út á við. Sem ritari tók hún við símtölum, flokkaði pappíra og ritaði og bætti ræðudrög ráðherrans, mörg hver samin á elleftu stundu. Innan ráðuneytis varð hún hvers manns hugljúfi. Eftir ríkisstjórnarskipti vorið 1983 gegndi hún áfram ritarastarfi fyrir Sverri Hermannson og fylgdi honum að mig minnir yfir í menntamálaráðuneytið tveim árum síðar.

Við Sigrún hittumst örsjaldan eftir þetta, jólakort gengu á milli og einu sinni fyrir um áratug litu þau Bessi til okkar Kristínar hér við Skúlagötu og við rifjuðum upp gamlar minningar. Ég var grunlaus um þann sjúkdóm sem þá beið þessa trausta og elskulega einstaklings sem nú hefur kvatt okkur. Sigrún var frábær fulltrúi fyrir þann fjölda starfsmanna, oftast kvenna, sem eru burðarásar í gangverki   samfélags okkar, jafnt hjá opinberum aðilum og einkafyrirtækjum. Við Kristín sendum Bessa og öllum í fjölskyldu þeirra samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim