Sigurður Blöndal
1924‒2014

Skógar heitir minnsta byggðarlagið á Héraði, skjólgott og hóflega laugað vætu úr austlægum áttum. Þar hjarði enn á 19. öld Hallormsstaðaskógur, rómað fágæti af gestum og gangandi. Í Mjóanesi í Skógum komu foreldrar Sigurðar upp einkaskóla á ættarleifð Elísabetar ömmu okkar, sem sjálf bjó lengst af á Hallormsstað, annáluð bóka- og hannyrðakona. Á Hallormsstað komu dóttir hennar Sigrún og Benedikt Blöndal upp húsmæðraskóla 1930, stofnun sem enn gagnast ungmennum víða að. Fyrir var þar aðeins býlið Hallormsstaður, frá 1906 bústaður skógarvarðar. Í Húsmæðraskólanum óx Sigurður úr grasi innan um „stúlkurnar“, eins og honum var tamt að nefna kvenlegginn, og þaðan hélt hann til náms í MA, gangandi yfir Fjöllin í kafaldssnjó. Tvítugur að aldri hafði hann misst báða foreldra sína, en frá þeim fékk hann endingargott vegarnesti. Eftir háskólanám í skógrækt í Noregi lá leið hans brátt á ný heim í Hallormsstað, þar sem hann tók 1955 við vörslu skógarins af föður mínum.

Sigurður frændi var óvenju fjölhæfur og heilsteyptur einstaklingur. Umönnun skóga, plöntuuppeldi og að lokum stjórn skógræktarmála á landsvísu varð hans opinbera ævistarf. Á því sviði naut hann stuðnings margra samferðarmanna, sem deildu þeirri hugsjón að reisa gróðurríki Íslands úr rústum, í vaxandi mæli með stuðningi af innfluttum trjátegundum. „Þetta getur Ísland“ var stolt yfirlýsing Sigurðar á áttræðisafmælinu þar sem hann leit yfir farinn veg. Enginn keppti við hann um yfirsýn um skógræktarmálefni þegar hér var komið sögu. Um það vitna óvenju samfelld greinaskrif hans í Ársrit Skógræktarfélags Íslands og víðar, sem og stundakennsla á mörgum skólastigum, sem hann uppskar almennt lof fyrir. Sem leiðsögumaður var Sigurður einnig eftirsóttur, og fræðslugöngur um Trjásafn og lundi Hallormsstaðar með hann í fararbroddi urðu flestum ógleymanlegar. Náttúra Íslands átti hug hans, þótt sjónsviðið væri aðallega neðan skógarmarka. 

Þótt röskur áratugur skildi okkur Sigurð að var náið með okkur, áhugamál og  lífsviðhorf ekki ósvipuð, og lengst af ekki langt á milli fjölskyldna. Hann gerðist sósíalisti þegar í menntaskóla, fylgdist alla tíð náið með heimsviðburðum og las kynstur af bókum, sagnfræðilegs efnis sem og skáldverk. Á 8. áratugnum var hann í tvö kjörtímabil varaþingmaður Alþýðubandalagsins í Austurlandskjördæmi. Málafylgja hans á Alþingi endurspeglaði víðtækt áhugasvið, allt frá úrbótum á ferðamannastöðum til tengsla við Háskóla Sameinuðu þjóðanna. Tvívegis var hann sem þingmaður fulltrúi á Allsherjarþinginu og naut þess til hlítar, áhuginn á mönnum og málefnum ósvikinn jafnt heima sem erlendis.

Ótalið er hversu skemmtilegur frændi var heim að sækja, studdur af eiginkonunni Guðrúnu Sigurðardóttur með traustar rætur norðan af Sléttu og úr Núpasveit. Það var tilhlökkunarefni þegar von var á skógarverðinum með plöntur að vori eða jólatré á aðventu niður á Norðfjörð og nægði vart nóttin til að bera saman bækur. Fyrir samfylgdina þökkum við Kristín nú að leiðarlokum.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim