Skarphéðinn G Þórisson
1954‒2023

Flugslysið á Hraunum eystra 9. júlí sl. lætur enga ósnortna. Það var hörmulegur atburður sem ganga mun inn í sögubækur.  Við Skarphéðinn tengdumst fræði- og vinaböndum allt frá því að hann fyrst fluttist til Austurlands um 1980. Hann var kærkominn sem náttúrufræðingur í landshluta þar sem fáír slíkir voru fyrir. Rannsóknir hans á hreindýrum  byrjuðu sem liður í víðtækum athugunum á vegum Orkustofnunar og Náttúrufræðistofnunar  á viðgangi austfirska hreindýrastofnsins og tengdust m.a. sérfræðingum erlendis frá. Áður hafði Náttúrugripasafnið í Neskaupstað tekið að sér víðtækar athuganir fyrir stjórnvöld á gróðurfari norðan Vatnajökuls.

Náttúrufræðingarnir Skarphéðinn G. og Kristbjörn Egilsson voru í fararbroddi þessara samþættu rannsókna sem brátt beindust að viðgangi  hreindýrastofnsins og veiðum úr honum. Varð Skarphéðinn sem brátt settist að með Ragnhildi Rós í Fellabæ lykilmaður í  ráðgjöf og þróun á þessu sviði. Eftir stofnun Náttúrustofu Austurlands á tíunda áratugnum varð hann í forystu fyrir starfi stofunnar á Héraði, til viðbótar fjölþættu starfi á hennar vegum í Neskaupstað. Sá fjöldi einstaklinga sem kom að þessum vaxtarbroddi bast Skarphéðni nánum böndum. Allir sem kynntust honum syrgja nú fráfall hans og væntanlegs eftirmanns þar sem var Fríða Jóhannesdóttir. Það högg sem hér var greitt þessu úrvalsfólki ásamt með reyndum flugmanni mun seint gleymast og kallar á víðtækan stuðning við aðstandendur og þau mikilvægu störf sem þau stóðu fyrir.

Kynni okkar Skarphéðins voru margþætt en í meginatriðum tengd náttúru Austurlands og ritstörfum mínum um áratugi. Reynt hefur verið að kynna náttúrufar fjórðungsins, þar á meðal hreindýrastofninn. Margoft hef ég leitað í smiðju Skarphéðins um mál og myndir. Sem náttúruljósmyndari var hann fyrir löngu í sérflokki hinna bestu. Myndataka hans tengdist ekki síst flugferðunum, sem snemma urðu hans eftirlæti og voru nátengdar rannsóknum hans á hreindýrastofninum. Í ljósi þess eru ævilok hans þeim mun hörmulegri.

Á milli okkar gengu tíðum tölvuskeyti og orðsendingar, oftast kvabb og fyrirspurnir af minni hálfu. Eftir á átta ég mig á að hafa sent honum skeyti 9. júlí sl. með ósk um mynd sem mig vantaði af austfirskum fjallvegi. Við þeirri beiðni barst mér ekki svar, sem skýrist í ljósi atburða þennan sama dag.

Minnisstæð eru í lífi þeirra hjóna Afríkuárin 2004-2006 í Malaví og frásagnir þeirra þaðan. Í ársbyrjun 2005 barst mér jólakveðja frá Skarphéðni og var upphafið svohljóðandi: „Lífið hér í Afríku gengur sinn vana(hæga)gang og nú e r regntíminn á fullu – allt orðið iðjagrænt og margir fuglar komnir í skrautlegan varpbúning og ber mikið á þeim, einna mest fagurrauðum svokölluðum biskupum og um fimm tegundir vefara, flestir skærgulir ... Í tréi við húsvegginn eru tvær tegundir smáfugla að byggja sér hreiður og báðir við vespubú sem þeir telja greinilega til bóta. Það er því nóg fyrir mig að sýsla fyrir utan það að vera ábyrgur fyrir kennslu barnanna.“ Sumir óttuðust óvissu um endurkomu fjölskyldunnar til heimalandsins, en við bættust 17 gjöful ár þeirra saman hér á Fróni.

Ragnhildi Rós og öllum afkomendum sendum við Kristín innilegar samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim