Skúli Alexandersson
1926‒2015

Það var rétt liðinn mánuður frá því ég heyrði í Skúla Alexanderssyni í síma þegar fréttin barst af andláti hans. Hann virtist hress og var að forvitnast um ráðstefnu um Spánverjavígin og atburði sem henni tengdust hér syðra. Jón lærði var honum þá sem oftar ofarlega í huga, enda ekki langt á milli fæðingarstaða þeirra á Ströndum, en hálf fimmta öld skildi þá að í tíma. Á ferð um Reykjarfjörð 1996 var mér bent á æskuheimili Skúla og mér fannst sitthvað í fari hans færast nær eftir að hafa farið um þær mögnuðu slóðir. ‒ Við Skúli áttum samleið á Alþingi í 12 ár í þingflokki Alþýðubandalagsins sem á þeim tíma átti tvívegis aðild að ríkisstjórnum. Hann var einlægur sósíalisti og samvinnumaður og lítil byggðarlög áttu í honum vísan stuðningsmann. Þingmenn flokksins voru um 10 talsins á þessu skeiði og þegar 3 ráðherrar úr þeim hópi sátu í ríkisstjórn reyndi mikið á þá „óbreyttu“ sem sæti áttu í mörgum þingnefndum. Alþingi var á þessum árum fram til 1991 deildaskipt og Skúli átti allan sinn þingtíma sæti í Efri deild. Hann rækti störf sín á Alþingi af mikilli samviskusemi og var í senn traustur og skemmtilegur félagi. Hvar sem leið hans lá fylgdi honum hvellur hlátur og gamansemi. Miðaldra var hann kosinn á þing og hafði þá öðlast margháttaða reynslu af þátttöku í atvinnulífi, bæði við verslunarstörf og útgerð. Nýttist sú reynsla honum og þingflokknum vel og ekki síður þekking hans á sveitarstjórnarmálum. ‒ Eftir að leiðir okkar skildu við Austurvöll heyrði ég öðru hvoru í Skúla, ekki síst vegna áhuga hans á náttúruvernd og útivistarmálum. Hann átti góðan og farsælan hlut að undirbúningi þjóðgarðsstofnunar undir Jökli, sem varð að veruleika árið 2001 eftir nær 30 ára meðgöngutíma. Ferðamál voru honum líka hjartfólgin og hann átti sjálfur margar ferðir um landið með Hrefnu sinni. Nálægt aldamótum lágu leiðir okkar saman í Eldgjá og sumarið 2008 heimsóttum við Kristín hann á Hellissandi og nutum ógleymanlegrar leiðsagnar hans á heimaslóð. Samfélagið undir Jökli og Vesturland allt átti í honum traustan málsvara til hinstu stundar. Slíkra er gott að minnast að leiðarlokum.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim