Soffía Björgúlfsdóttir
1921–2016

Landsþekktir forystumenn sósíalista í Neskaupstað á öldinni sem leið, þrístirnið Lúðvík, Bjarni og Jóhannes, áttu eiginkonur sem stóðu sem húsfreyjur við hlið þeirra eins og þá var tíðarandi. Soffía Björgúlfsdóttir, fædd á verkamannsheimili á Norðfirði, gekk að eiga Jóhannes Stefánsson síðla árs 1940, en hún hafði vorið áður lokið tveggja vetra námi við Húsmæðraskólann á Hallormsstað. Þau höfðu fellt hugi saman áður en hún fór í skólann haustið 1938, en þá vann Soffía fyrir sér á Héraði í tvö sumur. „Við vorum sammála um að húsmæðranám væri gott og hagnýtt fyrir mig sem verðandi húsmóður. Að vísu þýddi þetta aðskilnað okkar í tvo vetur, því að ekki leyfðu samgöngur okkur að skreppa heim yfir skólatímann“ sagði Soffía löngu síðar í endurminningum um skólagöngu sína á Hallormsstað. Sannarlega nýttist það vegarnesti henni vel heima fyrir og sem handavinnukennara um skeið í Neskaupstað. Heimilið sem þau hjón komu sér upp við Þiljuvelli bar þessum bakgrunni hennar fagurt vitni. Þau hlúðu samhent að menningarlífi í kaupstaðnum. Hjá þeim var tíðum gestkvæmt og gisting oft til reiðu af nauðsyn, áður en hótelrekstur hófst í kaupstaðnum um miðjan sjöunda áratuginn. Þar ólust synirnir Valgarður og Ólafur upp við gott atlæti. Á Jóhannes hlóðust félags- og ábyrgðarstörf, ekki síst tengd atvinnulífi bæjarins, auk setu í bæjarstjórn Neskaupstaðar í röskan aldarþriðjung. Það var honum mikið lán að hafa Soffíu ætíð sér við hlið, ekki síst eftir að heilsa hans brast á níunda áratugnum, en þau hjón höfðu þá flust til Reykjavíkur þar sem Jóhannes lést á heimili þeirra í Bólstaðarhlíð árið 1995.

Soffía var mannblendin og átti létta lund sem auðveldaði henni samskipti við fjölda manns á lífsleiðinni. Hún var mannglögg og minnug og fylgdist fram undir það síðasta með gangi mála á æskustöðvunum eystra. Við Kristín eigum frá henni mörg hlý orð í jólakveðjum og ég birti 2005 frá henni minningar um skólaárin á Hallormsstað, þar sem hún segir m.a.: „Vinnudagurinn var langur, frá sjö á morgnana til klukkan tíu á kvöldin. Kvöldvökurnar eru eftirminnilegar, við stúlkurnar sátum með hannyrðir við arineld og hlýddum á upplestur. Einnig vefnaðarkennslan í „baðstofunni“, henni fylgdi líf of fjör, tíu vefstólar í notkun samtímis. og mikill hávaði.“ – Þau hjón studdu ætíð við starfsemi Húsmæðraskólans sem enn starfar þótt í breyttu formi sé, bóndinn sem fulltrúi í skólanefnd hans í 35 ár. Hlutur húsmæðrafræðslu framan af öldinni sem leið er oft vanmetinn eftir að jafnréttisbarátta tók að bera sýnilegan ávöxt. Víst hefði Soffía valdið með sóma öðru hlutverki en varð hennar aðalstarf í lífinu, en að leiðarlokum gat hún litið stolt og ánægð um öxl.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim