Stefán G. Þórarinsson Dánarauglýsingar Morgunblaðsins eru mikill fróðleiksbrunnur, ekki síst þegar um fjarskylda kunningja er að ræða. Þannig frétti ég af láti Stefáns G. Þórarinssonar, samstúdents míns frá vorinu 1955 og fyrrum herbergisfélaga í þrjá vetur í heimavist Menntaskólans á Akureyri. Við Stefán tókum landspróf sama vorið 1951 frá MA, sem starfrækti í áratugi sérstaka 2ja vetra deild í þessu skyni. Varð hún bjarghringur fyrir ýmsa af landsbyggðinni, sem sumir hverjir fengu inni í Stefán, kallaður Bóbó, var ættaður af Héraði eins og undirritaður, afi hans og nafngjafi Stefán Þórarinsson (1871‒1951) lengi bóndi á Mýrum og forystumaður í Skriðdalshreppi, í fyrra hjónabandi kvæntur Jónínu Salnýju Einarsdóttur (1877-1917) og eignuðust þau 9 börn, þeirra á meðal Þórarin, föður Bóbós. Var Þórarinn að ævistarfi kennari við Héraðsskólann á Laugarvatni, kvæntur Guðmundu Margrétu Guðmundsdóttur. Það var fyrir tilviljun að við Stefán urðum herbergisfélagar í MA haustið 1951. Við deildum þar tveggja manna herbergi á 1. hæð skólans, skammt innan við aðalinnganginn t.h. Þar voru þrjú nemendaherbergi auk íbúðar Árna Friðgeirssonar þáverandi ráðsmanns yfir heimavist MA. Þar á hliðarganginum var eini nemendasíminn Í skólabyggingunni. Við í nemendaherbergjunum þremur skiptumst á að vakta hann frá viku til viku. Í því fólst m.a. að sækja í símann samnemendur sem deildu svefnherbergjum á efri hæðum skólahússins. „Nýju heimavistirnar“ voru smám saman að komast Í gagnið þessi árin og í 4. bekk veturinn eftir fengum við Stefán herbergi í nýju karlavistinni. Í 5. bekk deildum við hins vegar kvistherbergi efst á Suðurvistum gamla skólans með glugga mót vestri. Nú eru þar á háaloftinu engin skilrúm og eingöngu geymslur. Stefán valdi máladeild, en ég var stærðfræðimegin, þannig að um samlestur í námi var ekki að ræða. Hins vegar fór mjög vel á með okkur öll árin í skóla þannig að ég minnist engra árekstra í þessu sambýli okkar. Í 6. bekk leigði ég prívatherbergi úti í bæ að Oddagötu 13, að sögn Þórarins skólameistara „til að geta þjónað betur flokknum“, þ.e. sótt pólitíska kvöldfundi úti í bæ, en heimavistin lokaði kl 22! Við stúdentspróf skildu leiðir okkar Stefáns, ég stefndi á nám erlendis, en hann hvarf brátt að störfum í Seðlabanka Íslands, sem varð hans vettvangur. Síðasta veturinn í MA tók hann saman við bekkjarsystur okkar Láru V Samúelsdóttur og innsigluðu þau farsælt hjónaband sitt vorið 1956. Af þeim meiði fæddust fjögur börn þeirra og margir afkomendur. Aðstæður höguðu því svo að við Stefán hittumst sjaldan í tímans rás, en nú að leiðarlokum minnist ég margra ánægjulegra stunda sem við deildum með okkur á námsárunum nyrðra. Hjörleifur Guttormsson
|