Stefán Þorleifsson
1916 - 2021

Stefán Þorleifsson átti ekki aðeins langa heldur einstaklega farsæla æfi þegar litið er til ferils hans og fjölskyldunnar á Þiljuvöllum 21 í Neskaupstað. Hann var léttur í lund og hvers manns hugljúfi, skýr í hugsun og náði að sameina fólk til góðra verka. Hann ólst upp í stórum systkinahópi við afar kröpp kjör, fór á kreppuárunum á vertíðir í Sandgerði og Hornafirði. "Þrjár vertíðir í röð kom ég heim allslaus" sagði hann í viðtali löngu síðar. Það var lán Stefáns og byggðarlagsins að hann lauk íþróttakennaranámi á Laugarvatni 1940.

Ég minnist Stefáns fyrst á fundi Ungmenna- og íþróttasambands Austurlands (ÚÍA) um miðja síðustu öld, að ég held á Eskifirði sumarið 1949, þar sem hann var staddur með öðrum forystumönnum þeirra dugmiklu samtaka, m.a. skólastjórunum Gunnari Ólafssyni og Skúla Þorsteinssyni svo og Ármanni Halldórssyni þá kennara á Eiðum. Stefán hafði þá starfað í áratug sem íþróttakennari í Neskaupstað, byrjaði þar kennslu við frumstæðar aðstæður, m.a. í Gömlu sundlaug, óupphitaðri torflaug neðan við Vatnshól. Brátt var þó úr því bætt með óvenju glæsilegum hætti með nýrri útisundlaug 1943 sem stækkuð ber nú nafn kennarans Stefáns. – Framkvæmdir við annað stórvirki, byggingu sjúkrahúss, hófust 1948 og stóðu hátt í áratug uns Fjórðungssjúkrahúsið var tekið í notkun í ársbyrjun 1957. Einnig að því verki kom Stefán sem fulltrúi í byggingarnefnd og var síðan ráðinn framkvæmdastjóri sjúkrahússins áður en það tók til starfa. Það var mikið heillaspor og þar stóð Stefán í stafni oft við erfiðar aðstæður í þrjá áratugi. Þrautseigja hans og lagni við að tryggja rekstur þessarar stofnunar var einstök, sem og framsýni um þróun spítalans. – Tilviljun réði því að við Kristín komum til starfa á Norðfirði haustið 1963 eftir óvænt símtal frá Stefáni sem leiddi til þess að kona mín starfaði þar sem læknir í yfir 40 ár.

En Stefán kom víðar við sögu, m.a. sem formaður í skólanefnd Neskaupstaðar þar sem við áttum farsælt samstarf um árabil. Á þeim árum reis myndarlegt íþróttahús, tekið í notkun um 1970. Margir undrast hvernig það gat gerst að róttækur meirihluti hélt velli samfellt í hálfa öld í Neskaupstað. Dugmiklir bæjarfulltrúar skiptu þar vissulega máli, en ekki síður ósérhlífnir hæfileikamenn eins og Stefán Þorleifsson sem ræktu sínar daglegu skyldur í þágu samfélagsins.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim