Svavar Gestsson Við Svavar kynntumst fyrst um 1970 þegar hann var starfsmaður á Þjóðviljanum og síðan ritstjóri blaðsins ásamt með Kjartani Ólafssyni. Áratugur átaka fór í hönd, vinstristjórn leysti viðreisnarstjórnina af hólmi. Dagblöðin skiptu miklu máli í stjórnmálastarfi flokkanna, Þjóðviljinn, „málgagn sósíalisma, verkalýðshreyfingar og þjóðfrelsis“ var með yfirburði á vinstrivæng, gefinn út af sérstöku útgáfufélagi og auk áskriftargjalda borinn uppi fjárhagslega af óeigingjörnum framlögum fjölda stuðningsmanna. Ritstjórarnir þurftu ekki aðeins að tryggja efni frá degi til dags heldur að leggja lið í árlegri fjársöfnun. Þannig kynntist ég Svavari sem ungum og frískum eldhuga í heimsóknum hans til Austurlands og get vottað að hann fór þaðan aldrei tómhentur til baka. Alþýðubandalagið hafði breyst úr lauslegum samtökum í formlegan stjórnmálaflokk haustið 1968 um leið og Sósíalistaflokkurinn var lagður niður. Á stofnfundi Alþýðubandalagsins var gerð um það samþykkt að engin flokksleg tengsl skyldu höfð við ráðandi flokka í Austur-Evrópu, sem þá höfðu nýverið staðið að innrás í Tékkóslóvakíu. Þessi samþykkt skipti sköpum fyrir sjálfsmynd flokksins og um hana stóðu þeir Kjartan og Svavar sem ritstjórar Þjóðviljans dyggilegan vörð samhliða því sem hugmyndir til afturhvarfs voru formlega kveðnar niður á vettvangi Alþýðubandalagsins. Sigur A-flokkanna svonefndu í kosningum 1978 leiddi til stjórnarmyndunar undir forystu Framsóknar og böndin bárust að okkur Svavari nýkjörnum á þing um að taka ráðherrasæti ásamt með Ragnari Arnalds, gamalreyndum fyrrum formanni AB. Samstarf okkar þremenninga í tveimur ríkisstjórnum til vors 1983 gekk vel þrátt fyrir ýmis ytri boðaföll. Auk ráðherrastarfa reyndi þá á Svavar sem gegndi flokksformennsku 1980‒1987 og var síðan í framvarðarsveit næsta áratuginn ásamt með ráðherrastörfum á ný 1988‒1991. Tíundi áratugurinn varð átakatími á vinstri væng stjórnmálanna og ákall barst úr ýmsum áttum um aukið samstarf flokka og samtaka á þeim væng. Afstaða Íslands til Evrópusambandsins bættist við önnur álitamál um störf og stefnu. Umhverfismál hérlendis og á alþjóðavísu kölluðu á nýja sýn. Sameiningarákallið frá fyrri tíð átti sterkar rætur í hugmyndaheimi Svavars og réði vali hans um að ganga í Samfylkinguna undir lok þingferils. Við reyndumst um margt hafa ólíka framtíðarsýn og þess vegna skildu leiðir. Þar skiptu mestu áformin um aðild Íslands að Evrópusambandinu og afstaða mín til umhverfismála. Í sjálfsævisögu sinni „Hreint úr sagt“ gerir Svavar góða grein fyrir þessum krossgötum. Hann fór í sendiherrastarf erlendis, en ég starfaði í flokki Vinstri grænna á meðan forysta þess flokks hélt sig við markaða stefnu. Hjörleifur Guttormsson
|