Sveinn Sigurbjarnarson
1945 - 2021

Það er erfitt að horfast í augu við að Svenni bílstjóri sé látinn, áratug yngri en sá sem hér heldur á penna, í minningunni einstaklega glaðvær maður og hörkutól sem brást við hverju sem var af æðruleysi. Þannig veit ég að hann hefur tekist á við manninn með ljáinn síðasta spölinn. Foreldrum hans, ömmunum Helgu og Ingileif og Pétri afa kynntist ég náið á bernskuárum mínum á Hallormsstað, einstöku sómafólki sem komst af sem hjáleigubændur við lítil efni en hélt samt reisn sinni og glaðværð. Af aðstæðum þeirra varð mér á barnsaldri ljós stéttamunur í sveitum fyrri tíðar og að lyndiseinkunn ræðst hvorki af prófgráðum né embættum.  Það vegarnesti sem Sveinn og systkini hans fengu frá Hafursá reyndist þeim drjúgt og leiðir Svenna lágu eftir Eiðaskóla niður á firði þar sem frekar var atvinnu að hafa í síld og tækjum, sem tóku örum breytingum á sjöunda áratugnum. Svo vildi til að Sveinn settist að á Eskifirði 1963 sama árið og við Kristín í Neskaupstað. Þar fann hann brátt sína staðfestu með Margréti, síðan lífsförunauti sínum. Jafnframt varð til tækjamaðurinn Sveinn, sjálfmenntaður reynslubolti sem þróaðist stig af stigi.

Oddsskarð var á þessum árum meiri þröskuldur milli byggðarlaga en fyrr og síðar.  Norðfirðingar fengu beinar flugsamgöngur við höfuðborgina með Flugsýn hf um skeið og engar skipulegar vetrarferðir voru yfir skarðið. Flugslys og önnur röskun kallaði um 1970 á úrlausn og þá kom snjóbílstjórinn Svenni til sögunnar með töfratækið Tanna sem varð lífæð milli byggðarlaganna í heilan áratug áður en Oddskarðsgöng komust loks í gagnið 1979. Í því hlutverki varð snjóbílsstjórinn á skyrtunni með uppbrettar ermar brátt landsþekktur, brosmildur og æðrulaus á hverju sem gekk. Á þessum áratug þurfti ég starfa minna vegna oft í flugi milli landshluta og ferðirnar með Svenna yfir skarðið skiptu jafnvel tugum að vetrarlagi.  Andstætt snjóbílstjóranum bjó ég mig að jafnaði undir að þurfa að ganga albúinn yfir skarðið eða Fagradal og fyrir kom að á það reyndi. Snjóavetur komu öðru hvoru þótt út yfir tæki 1974–75 þegar mannskæð snjóflóð féllu í Neskaupstað. Þátt Sveins við þær aðstæður muna margir.

En ferðir Sveins með Tanna lágu víðar en yfir Oddsskarð, m.a. inn eftir Fljótsdalsheiði á Vatnajökul til aðstoðar Helga Björnssyni við jöklarannsóknir og síðar einnig á Hofsjökul. Um þau ævintýri og tilfallandi raunir má lesa í ágætri viðtalsbók Ingu Rósu Þórðardóttur undir heitinu „Það reddast“. Sem fararstjóri í ýmsum hálendisferðum næstu áratuga naut ég oft Svenna og samstarfsmanna  hans. Þar sat ég áhyggjulaus við hljóðnemann og fræddist oft af bílstjóranum sem aldrei brást. Eftirminnilegur er síðasti leiðangurinn fyrir um áratug með læknahóp víða um Austfirði og endaði í Mjóafirði þar sem Svenni sýndi mönnum inn í grafhýsi Konráðs. – Eftir aldamótin stóð Sveinn fyrir umfangsmiklum bílarekstri, m.a. tengdum stóriðjuframkvæmdum. Um þær hafði hann sínar skoðanir, sem og á þjóðmálum almennt, en flíkaði þeim sjaldan. Í viðtalsbók Ingu Rósu má þó margt lesa milli línanna, m.a. þar sem hann segir:  „Það hefur alltaf háð okkur Íslendingum hvað við erum lítil markaðsþjóð en samt höll undir markaðshyggjuna eins og hún hefur verið rekin.“ – Nú að leiðarlokum þökkum við Kristín  Svenna og hans fólki samfylgdina..

Hjörleifur GuttormssonTil baka | | Heim