Sverrir Hermannsson
1930 - 2018

Með Sverri Hermannssyni er fallinn frá eftirminnilegur samferðamaður. Þótt fimm ár skildu okkur að og við værum hvor frá sínu landshorni áttu leiðir okkar eftir að liggja saman um skeið. Við vorum samtímis í Menntaskólanum á Akureyri fyrrihluta árs 1951, ég nýkominn að austan í landsprófsdeild en hann að útskrifast stúdent þá um vorið. Fyrstu karlnemendur fluttu inn á neðsta gang í nýrri heimavist MA þá í ársbyrjun og við Gunnar, tvíburar nýkomnir að austan, fengum þar inni ásamt með sjöttubekkingum sem urðu okkur eðlilega eftirminnilegir. Sverrir var einn í þeim hópi, deildi þar herbergi með Haraldi Bessasyni sem hann löngu seinna átti eftir að kalla í frá Vesturheimi til að taka við forstöðu nýstofnaðs háskóla á Akureyri. -

Næst áttum við Sverrir samfylgd í framboðsleiðangri til Alþingis vorið 1967, en hann var þá um skeið varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Austurlandskjördæmi. Þetta var kalt vor og gekk á ýmsu um farkosti þar sem keppinautar um fylgi deildu plássi í snjóbílum og varðskipum. Mælskumaðurinn Sverrir vakti eðlilega athygli á fundum, vestfirskt tungutak hans um margt ólíkt austfirskunni. Vorið 1971 erfði síðan Sverrir þingsætið eftir Jónas Pétursson, en þeir voru ólíkir menn um margt til orðs og æðis.

Sverrir sat samfellt á Alþingi 1971-1987 og eftir að ég kom inn á þann vettvang 1978 lágu leiðir okkar saman jafnt í fundarsölum og á vettvangi þingmanna Austurlandskjördæmis. Auk þingsetunnar gegndi hann í tvö kjörtímabil forstjórastarfi hjá Framkvæmdastofnun ríkisins, sem að vonum var umdeilt. Í tíð ríkisstjórnar Gunnars Thoroddsens var Sverrir sem stjórnarandstæðingur í hlutverki forseta Neðri deildar sem ekki var auðvelt á miðju jarðsprengjusvæði sem þá lá um þveran þingflokk Sjálfstæðismanna. Í minningunni finnst mér sem hann hafi komist býsna vel frá því tvísýna hlutverki. Eftir ríkisstjórnarskipti vorið 1983 tók hann við starfi iðnaðarráðherra þar sem ég afhenti honum lykla að ráðuneytinu ásamt gildri skýrslu um málasvið orku- og iðnaðar. Í hans hlut kom þá að ganga frá samningum við Alusuisse um orkuverð til álversins í Straumsvík á þeim grunni sem lagður hafði verið.

Síðustu árin í Stjórnarráðinu 1985-1987 gegndi Sverrir starfi menntamálaráðherra, verkefni sem lá nær hans áhugasviði en iðnaðarmálin. Í þeim efnum vann hann það þjóðþrifaverk að fá ríkið til að kaupa húsnæði Mjólkursamsölunnar fyrir Þjóðskjalasafn Íslands sem enn og vonandi lengi fær að búa að þeim gjörningi. Undir hans handarjaðri fékk Jón Böðvarsson íslenskufræðingur næði til að  ritstýra Iðnsögu Íslendinga, gott dæmi um að Sverrir lét málefni en ekki flokksskírteini ráða verkefnavali.

Þótt við hefðum ólíka sýn til stjórnmála og tækjumst á jafnt á Alþingi og í kjördæmi hef ég aðeins góðar minningar um samskiptin við Sverri Hermannsson. Börnum hans og öðrum afkomendum sendi ég samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim