Þór Vigfússon
1936–2013

Við Þór Vigfússon vorum jafnaldra en kynntumst fyrst um tvítugt, uxum úr grasi hvor í sínum landsfjórðungi. Þá var lengra á milli landshluta en síðar varð, hringvegur enn ekki kominn á dagskrá og enginn spotti malbikaður utan þéttbýlis. „Kem í Grímsstaði í kvöld, geturðu sótt mig?‟ hljóðaði skeyti sem barst í Hallormsstað um hásláttinn 1957. Ég fékk heimilisjeppann lánaðan og skrölti hálfa dagleið norður á Fjöll að sækja þennan vin minn sem þangað var kominn á puttanum. Honum hafði skilist að aðeins væri rösk bæjarleið frá Grímsstöðum austur á Hérað. Ekki kom það að sök, því að engum gat leiðst í för með Skessunni Þór,  eins og hann var nefndur af Laugvetningum. Á Hallormsstað gat ég sýnt honum skóg sem tók fram Þrastaskógi, og bátsferð á Lagarfljóti með skógardísum bætti um betur. – Við hófum háskólanám samtímis, hann í Berlín og ég í Leipzig, steinsnar á milli í lest og öðru hvoru setið á rökstólum í sögufrægri DDR-deild SÍA. Land þetta var ekki til samkvæmt bókum íslenskra stjórnvalda, en þar var þó hamast við að smíða fiskiskip handa Íslendingum og tekið á móti herskara af kaupahéðnum úr norðri á Leipziger-Messe. – Þegar kom að kosningum heima á Fróni þurftum við róttækir námsmenn í þessu hulduríki að ferðast landa á milli, ýmist til Prag eða Kaupinhafnar. Í þeim reisum var Þór sem endra nær hrókur fagnaðar og virðing borin fyrir þessu glæsimenni úr norðri jafnt af landamæravörðum sem barþjónum. Þór var þá þegar maður orðsins, framsögn hans lifandi og gáskafull, ýkjusögur fóru á flug, en ef svo bar undir braust fram djúp alvara og hnitmiðuð greining á mönnum og málefnum. Á bak við galsann bjó maður með ríkar tilfinningar, næma réttlætiskennd og reynslu af fátækt í uppvexti. – Eftir heimkomu frá námi var framtíð hans óráðin um skeið, en fljótlega fékk fræðarinn yfirhöndina og lífsstarfið varð kennsla og stjórnun við framhaldsskóla á Laugarvatni, í Reykjavík og á Selfossi. Framúrskarandi kennari, skemmtinn, sanngjarn og dáður er það orðspor sem ég heyrði fara af Þór. Við hittumst aðeins stöku sinum síðustu áratugina, en alltaf var það fagnaðarefni, gefandi og eftirminnilegt. Í ágúst 1994 bar fundum okkar saman við Kollumúlavatn á Lónsöræfum, Þór og Hildur ásamt Eggert bróður Þórs og Huldu hans konu, þangað komin úr Fljótsdal suður yfir Hraun. Með mér í för voru tveir nemendur Þórs frá í árdaga á Laugarvatni. Þarna áttum við gott samneyti í skála um nótt. Þór var ferðagarpur, hljóp af sér drauga og forynjur, og eignaðist fagurt heimili við Ölfusá. Hildur varð hans lífsförunautur og gæfa. Við Kristín þökkum þeim samfylgdina.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim