Þórður Tómasson
1921 – 2022


Sjaldan í Íslandssögunni var eins langt á milli landsfjórðunga og á þriðja fjórðungi 20. aldar, einkum þó milli Austurlands og Suðurlands. Hestaferðir höfðu lagst af sem samgöngumáti og samfellt akvegasamband komst þar ekki á yfir jökulár og sanda fyrr en 1974. Á þessum áratugum lagði Þórður Tómasson grunninn að Byggðasafninu í Skógum. Þangað kom ég fyrst í heimsókn vestan að sumarið 1966 og naut leiðsagnar Þórðar um safnið sem þá hafði verið áratug í eigin húsnæði. Á Austurlandi var þá aðeins til veikur vísir að minjasafni, varðveittur í húsi skáldsins á Skriðuklaustri.
Mér þykir líklegt að þessi heimsókn í Skógasafn hafi ýtt undir hugmyndina að Safnastofnun Austurlands (SAL), sem Samband sveitarfélaga á Austurlandi tók myndarlega undir árið 1972. Þegar kom að aðgerðum næstu árin við að skjóta fótum undir safnvísa eystra leitaði ég sem stjórnarformaður SAL til Þórðar í Skógum og Gunnlaugs Haraldssonar, þá þjóðfræðinema í Svíþjóð um söfnunarleiðangur á Austurlandi. Saman fóru þeir í ferð um fjórðunginn sumarið 1975 og skiluðu árangri sem birtist í stórri minjasýningu í grunnskólanum á Egilsstöðum sumarið 1976 sem Gunnlaugur hafði veg og vanda af.
Á þessum árum var grunnur lagður að Þjóðgarðinum í Skaftafelli á vegum Náttúruverndarráðs með þátttöku bænda þar á staðnum, Jakobs í Bölta og Ragnars Stefánssonar; varð sá síðarnefndi þjóðgarðsvörður þar í tvo áratugi. Það leyndi sér ekki að Þórður í Skógum hafði gengið þar um garða og hlúð að varðveislu um horfna tíð. Uppskeran birtist síðar í riti hans „Skaftafell – þættir úr sögu ættarseturs og atvinnuhátta.“
Þegar litið er til verka Þórðar í Skógum sem óbornar kynslóðir eiga eftir að njóta, blasir við áskorun um að samþætta með skýrari hætti en hingað til vernd sögulegra minja og náttúruvernd sem víðast á landinu, bæði í löggjöf og framkvæmd. Þannig verður minningu þessa afreksmanns bestur sómi sýndur.

 

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim