Tryggvi Ólafsson
1940–2019

Norðfirðingurinn Tryggvi Ólafsson skildi eftir sig mikinn arf með list sinni sem halda mun nafni hans lengi á lofti. Hann var við nám í Kaupmannahöfn þegar við komum til Neskaupstaðar haustið 1963 og í Khöfn bjó hann lengst af ævinnar með fjölskyldu sinni. Menningarlíf af margvíslegum toga blómstraði í Neskaupstað og það var því að vonum að menn fylgdust af áhuga með  þessum unga og frumlega listamanni sem féll vel inn í andrúmsloft sjöunda áratugarins. Ekki kann ég að ársetja sýningar hans í heimabyggð, en þær urðu margar og fjölsóttar áður lauk. Drýgstan þátt í að styðja við listamanninn Tryggva á heimslóð átti æskuvinur hans Magni Kristjánsson skipstjóri og athafnamaður. Magni safnaði verkum hans og lagði haustið 2001 til stofninn að Málverkasafni Tryggva Ólafssonar sem nú fyllir sali á  jarðhæð Safnahússins í Neskaupstað. Önnur eins litadýrð og þar blasir við er fágæt og það var ógleymanleg stund þegar safnið var opnað að viðstöddum listamanninum. Litir og líf voru samvaxin ævistarfi Tryggva og slokknuðu aldrei í ásýnd hans þrátt fyrir erfið veikindi síðasta spölinn. Við Kristín og niðjar okkar erum svo heppin að hafa eignast myndir eftir hann og njótum þeirra daglega. Ég kynntist honum fyrst og fremst í tengslum við sýningarnar sem hann hélt syðra og eystra. Tryggvi var einkar glaðvær og viðfelldinn einstaklingur og mér hefur alltaf fundist hann bera með sér það besta úr andblæ Kaupmannahafnar. Að leiðarlokum þökkum við Kristín samfylgdina og hugsum til fjölskyldu Tryggva á kveðjustund.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim