Tryggvi Sigurbjarnarson
1935–2023

Tryggvi var í hópi þeirra kunningja minna sem hægt var að treysta til brýnna verka og liðsinnis hvernig sem á stóð. Nú þegar hann hefur kvatt er genginn einstakur öðlingur sem sómdi sér ætíð vel við hlið verkfræðingsins Siglinde, sinnar elskulegu eiginkonu. Fá hjón hef ég þekkt sem væru samrýndari og betur samtaka í því sem að höndum bar, gestrisni þeirra og gamansemi einkar eftirminnileg hvenær sem barið var að dyrum.

Við sáumst fyrst í utanlandsferð með Dronning Alexandrine í júlímánuði 1955. Leiðin lá um Færeyjar til Kaupmannahafnar, þar sem við tók löng lestarferð með fjölda Íslendinga áleiðis á heimsmót æskunnar í Varsjá. Tryggvi hafði þá að baki eins árs nám i verkfræði í Dresden sem hann lauk með prýði um 1960. Samfundir okkar Íslendinga sem þar stunduðum nám í ýmsum greinum fóru í sögubækur kalda stríðsins.  Tryggvi og Siglinde hösluðu sér í fyrstu völl hérlendis á Siglufirði þar sem við Kristín nýkomin frá Leipzig heimsóttum þau akandi yfir Siglufjarðarskarð sumarið 1963.

Tryggvi kynntist raforkumálum hérlendis afar vel og við ólíkar aðstæður, þannig að tæpast var völ á betri ráðgjafa í þeim efnum. Málaflokkurinn var lengi vel mjög umdeildur þar sem á tókust ólík sjónarmið eftir landshlutum, innan stjórnmálaflokka og milli ríkis og sveitarfélaga. Við Tryggvi áttum góða samleið í Alþýðubandalaginu og komum þar á fót sérstakri orkunefnd sem skilaði áliti haustið 1976 sem góð samstaða tókst um í flokknum. Bar afurð nefndarinnar í bókarformi heitið „Íslensk orkustefna – Um orkugjafa og nýtingu innlendra orkulinda.“ Þetta vegarnesti reyndist mér drjúgt í löngu ráðherrastarfi og þar fékk ég áfram góð ráð frá Tryggva.
Eiginleikar Tryggva, létt lund og skipulagshæfileikar, nutu sín vel á mörgum sviðum, jafnt faglega og í félagsmálum, m.a. í rómuðum ferðum undir leiðsögn hans og Jóns Böðvarssonar heima og erlendis.

Heimilislíf þeirra Tryggva og Siglinde bar vott um glaðværð og gott barnauppeldi auk þess sem margir fengu þar húsaskjól á námsárum sínum í höfuðstaðnum. Þeir sem nutu heimboða þeirra hjóna við arineld og einstakar veitingar minnast þeirra stunda nú sem endranær þegar húsbóndans Tryggva nýtur ekki lengur við uppvaskið. Við Kristín sendum Siglinde og börnum þeirra okkar hlýjustu kveðjur.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim