Völundur Jóhannesson
1930–2021

Með Völundi er fallinn frá brautryðjandi í nútímalegum hálendisferðum um öræfin norðan Vatnajökuls. Þar voru jeppar af ýmsum gerðum fararskjótinn og höfðu tekið við af hestum sem fyrr á tíð báru örfáa fullhuga um þessi gróðurlitlu víðerni, auk bænda í fjárleitum. Kynni Völundar af Brúarbændum á Jökuldal leiddu til landnáms hans og Einars Ólasonar rafvirkjameistara í Grágæsadal um 1970, öræfavininni þar sem hann síðan undi best og kvaddi að lokum. Ég kynntist Völundi á þessum árum, þegar hann gerðist ötull liðsmaður í Náttúruverndarsamtökum Austurlands (NAUST) og hafði frumkvæði að stofnun Ferðafélags Fljótsdalshéraðs. Sem smiður og verkstæðisformaður hjá KHB gafst Völundi einstakt tækifæri til að láta drauma sína um fjallaskála rætast, m.a. við Snæfell og í Kverkfjöllum og hann fékk á sinn hljóðláta hátt ötulan stuðning margra. Í þeim umsvifum var góð umgengni sjálfsögð sem síðan hefur sett mark sitt á störf arftakanna. Friðlýsing Kringilsárrana 1975 var einn af ávöxtunum af verndarhugsjónum Völundar og vökul augu hans tryggðu frá upphafi gott  skipulag á umgengni í Hvannalindum.

Sem „jeppakarl“ stundaði Völundur ekki fjallgöngur að ráði. Við Kristín minnumst fyrstu göngu hans á gúmmístígvélum með okkur yfir Kverkjökul haustið 1972. Þá var Sigurðarskáli risinn og „völundarhús“ komið á Dyngju í Arnardal. Það var mikil gæfa fyrir þróun ferðamennsku í óbyggðunum norðaustanlands að hafa Völund þar í forystu um 20 ára skeið. Tugþúsundirnar sem sem nú njóta Vatnajökulsþjóðgarðs og tengdra svæða eiga honum og sporgöngumönnum hans mikið að þakka.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim