Hjörleifur Guttormsson Um veturnætur 2008 Alice Weigelt – In memoriam Ein besta vinkona okkar hjóna, Alice Weigelt, fædd Hofmann 18. september 1925, búsett í Leipzig, kvaddi þennan heim aðfaranótt 3. október síðastliðinn 83ja ára gömul. Engin vitni voru að andláti hennar utan tíkin Rósa, augnayndi og sálufélagi eiganda síns, nú komin að fótum fram. Alice eða Alí eins og hún var oft nefnd af kunningjum var ein af þessum ótrúlegu einstaklingum sem náðu að lifa tímana þrenna í Þýskalandi: Uppgang og stríð þriðja ríkisins, endurreisn í tvískiptu landi og sameiningu þar sem enn er þó tæpast gróið um heilt. Með þessa lífsreynslu í farangrinum tókst henni þó að halda sálarró og ætíð glöðu geði. Rætur Alice lágu í Erzgebirge (Erzfjöllum) við tékknesku landamærin, nánar tiltekið í smábænum Deutschneudorf þar sem faðir hennar Hans Hofmann (1896–1965) rak renniverkstæði og stýrði heimilinu af röggsemi á þeirrar tíðar vísu. Móðir hennar, Herta, fædd Mann (1896–1979), var rómuð hannyrðakona og réði ríkjum innanstokks og bróderaði án afláts. Stutt var í gamansemi og hrekki hjá húsbóndanum, eiginleika sem dóttirin Alice erfði og útfærði á ógleymanlegan hátt. Þær voru tvær systurnar, Rosemarie þremur árum yngri og býr hún með manni sínum í Chemnitz, borg sem á DDR-tímanum bar nafn Karls Marx þótt aldrei kæmi hann við sögu hennar svo mér sé kunnugt. Þótt ólíkar væru áttu þær systur gott sálufélag til loka. Alice stundaði kennaranám á stríðsárunum í bænum Lichtenstein í Saxlandi og hóf kennslustörf þegar haustið 1945, þá tvítug að aldri. Hún kynntist öðrum kennara, Dieter Weigelt að nafni, og felldu þau hugi saman og gengu brátt í hjónaband. Nokkrum árum síðar stefndu bæði á nám í læknisfræði. Fékk Dieter inngöngu, en Alice var hafnað á þeirri forsendu að faðir hennar væri atvinnurekandi. Slíkt féll ekki að hugmyndum kommúnista sem þá orðnir ráðandi í Austur-Þýskalandi um forgang fólks af lágstéttum til náms. Gerði Alice ítrekaðar tilraunir til að komast í læknisfræðinám og brá m.a. á það ráð að læra hjúkrun í von um að fá síðar inngöngu í læknadeild, en allt kom það fyrir ekki. Hún varð hins vegar skólastjóri Hjúkrunarskólans í Leipzig og hélt því starfi til ársins 1959 en smitaðist þá af lungnaberklum um svipað leyti og Kristín kona mín. Leiðir þeirra lágu saman á sjúkrastofu í Háskólasjúkrahúsinu þar sem þær glímdu við sjúkdóminn og sigruðust á honum hvor með sínum hætti. Með þeim tókst vinátta sem enginn skuggi hefur fallið á síðan. Eftir veikindin haslaði Alice sér völl sem endurmenntunarstjóri heilbrigðisstétta við háskólasjúkrahúsið í Leipzig. Það var í reynd fjölmennur skóli með flókinni stundaskrá sem hún stýrði af röggsemi. Reyndi þar mjög á hæfileika hennar við að fá kennara til verka í aukavinnu, og tókst það með ágætum. Þessu starfi sinnti hún í aldarfjórðung uns náð var eftirlaunaaldri. Í einkalífinu gekk á ýmsu. Þau Dieter slitu samvistum en síðar var hún um skeið í sambúð með Rudolf Thiele, listfræðingi og tónlistarmanni sem var nær 10 árum yngri. Rudolf var mikill húmoristi, góður teiknari og frábær tónlistarmaður, þótt aldrei lærði hann að lesa nótur. Eru kassar fullir af teikningum eftir hann í fórum Kristínar. Alice varð ekki barna auðið, sjálf mjög barnelsk og mátti skynja að hún harmaði að eiga sjálf ekki afkvæmi. Heimili átti Alice nálægt miðbænum í Leipzig, þar sem hún bjó um áratugi í Stephanstrasse í virðulegu 19. aldar húsi sem farið var að láta á sjá. Þaðan var útsýni austur um Johannistal þar sem smáborgarar fyrri tíðar áttu garðholur (Schrebergärten). Síðustu 18 árin bjó hún í góðri íbúð við Rossplatz nærri Augustustorgi, rétt hjá Gewandthaus og Óperunni. Þetta húsnæði þefaði hún uppi rétt um það leyti sem þýsku ríkin voru sameinuð um 1990. Miðbærinn og rangalarnir bak við Ring voru hennar ríki. Þar arkaði hún um daglega, glæsileg í fasi með Rósu eða forvera hennar sér til fulltingis. Hún átti fjölda kunningja, þar á meðal afgreiðslufólk í ótal búðum og Passagen sem enn sem fyrr setja svip á Leipzig. Hún lét fæturna bera sig um allt innanbæjar, jafnvel þótt erindað þyrfti í úthverfum. Til Íslands kom Alí í fyrsta sinn sumarið 1986. Það var stór stund og mikil upplifun eftir að hafa um áratugi kynnst mörgum frá þessu fjarlæga landi og veitt þeim húsaskjól og góðgerðir. Hún heillaðist strax af Íslandi, náttúrunni og fólki sem hún kynntist. Auðvitað var það Kristín sem laðaði Alí hingað á norðurslóð. Fyrsta verk Alice var að gerast svaramaður Einars sonar okkar og Hildigunnar verðandi tengdadóttur. Í kjölfarið var farið í brúðkaupsferð um landið þvert með alþjóðlegu fylgdarliði, m.a. til Kverkfjalla. Íslandsferðir Alice urðu margar áður en lauk og þess á milli reisur um sólríkari lönd í fylgd Kristínar og með fleiri valkyrjum íslenskum. Að sama skapi fjölgaði kunningum og viðskiptavinum í eggjabransanum, en skrautmálun hænueggja var helsta dægrastytting dóttur Hofmanns rennismiðs og Hertu hannyrðakonu og jafnframt óbrotgjarn tengiliður við fólk af öllum þjóðfélagsstigum. Þessi lágvaxna og litríka kona úr Erzfjöllum gleymist engum sem hana sáu og fyrir börn var hún nánast sem af öðrum heimi. Ógleymanlegt var að fylgjast með öruggu og listrænu handbragði hennar þar sem hún sat yfir palettu sinni og eggjasafni á ýmsum framleiðslustigum. „Die Eierfrau“ (eggjakonan) var tilvísun þeirra sem ekki vissu nafn hennar. Á bak við málun eggja liggur aldagömul handverkshefð úr fátækum fjallahéruðum sem fyrrum lágu á mörkum tveggja keisaradæma. Þær stöllurnar, Alí og Dídí, áttu það raunar sameiginlegt til viðbótar við fjölmargt annað að hafa ungar átt heima í útnárum Þýskalands á mörkum við Bæheim, –nánast eins langt og komist varð frá heimsins vígaslóð þegar fjöldi borga þúsundáraríkisins brann í lokaátökum stríðsins. Eins og að ofan greinir var Alice mikill persónuleiki sem gat brugðið sér í ólíkustu gervi líkt og þrautþjálfuð leikkona. Mér kemur oft í hug Helena Weigel í gervi Mutter Courage þegar ég hugsa til ferils Alí í gegnum heitt og kalt stríð 20. aldar og viðbragða hennar við ólíkar og oft óvæntar kringumstæður. Hjá báðum var vegarnestið þrautseigja og vilji að gefast ekki upp í lengstu lög. Það sem skildi á milli sögupersónu Brechts og Alice var að sú síðarnefnda hafði næmi til að skynja og skilja gangverk tilverunnar sem hulið var að mestu Mutter Courage á þrautagöngu hennar um vígvelli þrjátíuárastríðsins. Rétt ár er liðið frá því við Kristín áttum góðar stundir með Alí austur á Héraði. Hún lék á als oddi og fáir gátu ímyndað sér að þar færi kona á níræðisaldri. Nú á haustdögum áttum við leið um Bæheim og í bakaleið var ráðgerð viðdvöl í Leipzig til að heimsækja Alice Weigelt. Til Prag barst okkur fréttin um andlát hennar. Við héldum ferðaáætlun okkar óbreyttri en í stað endurfunda urðu að nægja minningar um litríka og ógleymanlega konu sem hér hafði fetað um götur og torg allt frá æskuárum. Hjörleifur
Guttormsson |