Anna Þorsteinsdóttir frá Óseyri

1915 - 2009

Anna Þorsteinsdóttir frá Óseyri var mikilhæf kona og eftirminnileg. Við vorum þremenningar þar eð afar okkar Páll á Hallormsstað og Guttormur í Stöð voru bræður, synir Vigfúsar prests Guttormssonar og Bjargar Stefánsdóttur á Ási í Fellum. Anna var viðloðandi Hallormsstað um það leyti sem ég fæddist en við kynntumst fyrst eftir að ég kom heim frá námi, hún þá kennari og prestmaddama í Eydölum í Breiðdal þar sem eiginmaður hennar Kristinn Hóseasson þjónaði samfleytt í fjóra áratugi. Anna og Kristinn gengu í hjónaband í árslok 1944 og fylgdust að ætíð síðan á langri ævi.

Anna var aðeins 15 ára þegar hún 1930 réðist í vist í Kirkjubólsseli og var síðar sama ár send í Hallormsstað til stuðnings við heimili föður míns sem misst hafði Sigríði fyrri konu sína, en hún var móðursystir Önnu. Húsmæðraskóli var þá nýtekinn til starfa á Hallormsstað undir stjórn föðursystur minnar Sigrúnar Pálsdóttur Blöndal. Sótti Anna skólann í tvo vetur og útskrifaðist þaðan vorið 1934. Reyndist námið og dvölin þar henni gott vegarnesti. Hún var þó ekki hraust þessi ár, greindist með berkla en náði sér að fullu eftir vetrarlanga dvöl á Reykjahæli. Veturinn 1943–1944 tók hún að sér rekstur mötuneytis stúdenta við Háskólann 28 ára gömul og hafði þar 8 stúlkur í vinnu. Bar það vott um áræði hennar og sjálfstraust, eiginleika sem komu henni vel alla tíð síðan. Hún hóf einkakennslu heima fyrir um 1940, fékk stöðu sem kennari í Helgustaðahreppi, kenndi síðar á Stöðvarfirði og á Akureyri en lengst við skólann á Staðarborg í Breiðdal steinsnar frá prestsetrinu. Anna var góður kennari, prýðilega máli farin og leiddi nemendur sína inn í heim ævintýra og skáldskapar.

Á heimili Önnu og Kristins var að vonum gestkvæmt og þar ólu þau upp kjörbörn sín Hallbjörn og Guðríði. Til viðbótar húsmóðurstörfum og kennslu var Anna þátttakandi í félagsmálum heima fyrir í Breiðdal og á austfirskum vettvangi. Þeirri hlið kynntist ég vel þegar hún átti sæti í stjórn Náttúruverndarsamtaka Austurlands 1978 og gekk með okkur í sumarferð langleiðina umhverfis Snæfell hálfsjötug að aldri. Anna hafði ríka réttlætiskennd, skipaði sér til vinstri í þjóðmálum eins og bræður hennar Skúli og Pétur og færði sig yfir á grænu línuna áður lauk. Hún var óvenju opinská og hispurslaus og lá ekki á skoðunum sínum um menn og málefni. Frá henni á ég frásagnir sem ekki liggja allar á lausu af ættmennum okkar og samferðafólki. Þegar ég ritaði um Breiðdal fyrir Ferðafélagið las Anna yfir kaflann um Eydali og lagði þar margt gott til.

Eftir að störfum þeirra hjóna lauk á Austurlandi áttu þau farsælt ævikvöld í höfuðstaðnum, lengst af við bærilega heilsu. Kristinn féll frá fyrir rösku ári og eftir það hallaði undan fyrir Önnu sem var árinu eldri en hann og náði því næstum að verða hálftíræð. Síðast er við áttum tal saman sagðist hún hætt að afla sér fróðleiks með bóklestri en áhuginn á þjóðmálum var enn vakandi og hugsunin skýr. Gott er að verða gamall þegar hugur og hjarta vinna þannig saman til loka.

 

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim