Anna Björg Jónsdóttir, Hvannstóði

13. júlí 1920 30. desember 2002

Það var sumarið 1968 að ég fyrst barði að dyrum í Hvannstóði, innsta bæ í Borgarfirði eystra. Þar réðu þá húsum hjón á miðjum aldri, Sveinn Bjarnason og Anna Björg Jónsdóttir, bæði Borgfirðingar sem höfðu byggt upp jörðina úr eyði við lok heimsstyrjaldarinnar síðari og bjuggu þar við margt fé og ómegð. Þetta var góðviðrisdagur, börn í varpa og hundar heilsuðu gestum með mikilli gá. Túnið var hvítskellótt þótt komnar væru heyannir, eitt versta kalár aldarinnar á Norðausturlandi í algleymingi, bóndi með sonum ungum af bæ að reita saman hey, mig minnir suður í Loðmundarfirði. Anna húsfreyja tók mér og samfylgdarmanni hlýlega og sýndi strax áhuga því erindi okkar að ganga inn á Hvannstóðsdal til að líta á fágætar plöntur. Börn fylgdu okkur áleiðis og Borgarfjörður ljómaði í sumarblíðunni. Í bakaleið var sest yfir kaffi og meðlæti og fylgdi ómældur fróðleikur um fjallageiminn inn af Borgarfirði, áhugi húsfreyju þó mestur á fuglum himins og liljum vallarins. Börnin hlýddu á tal móður sinnar og gesta og höfðu greinilega áhuga á fleira en kleinunum. Það kom í ljós að systkinin voru tíu talsins, komin í heiminn á 20 ára tímabili og þau elstu orðin laus við heima. Eftir góðgjörðir fylgdi Anna okkur úr hlaði til að vísa í túnfæti á slæðingsplöntu sem hún hafði gefið gætur um tíma.

Anna í Hvannstóði hvarf ekki úr huga gestsins við túnhliðið. Fjörmikil augu hennar og létt lund þrátt fyrir erfiðan hversdag greiptu sig í huga minn eins og eflaust flestra sem henni kynntust. Hún og Sveinn höfðu þá þegar afkastað fullgildu ævistarfi, en héldu þó búskapnum áfram í hartnær aldarfjórðung í víðbót, samhent með stuðningi barna sinna. Leiðir okkar lágu alloft saman fram á síðustu ár, meðal annars á vettvangi Náttúruverndarsamtaka Austurlands sem þau hjón studdu dyggilega frá stofnun 1970. Þegar synirnir voru orðnir þátttakendur í búskapnum gafst foreldrunum loks færi á að létta sér upp stöku sinnum og skoða annað en heimahagana. Mér er minnisstæð fjölmenn ferð að Snæfelli sumarið 1985 þar sem Anna var í hópi þátttakenda og Skúli yngsti sprotinn með henni. Þá dró hún úr pússi sínu þurrkaða plöntu sem sonurinn Páll hafði þá um vorið veitt athygli í Brúnuvík og fært móður sinni. Þetta reyndist vera ljósalyng, fram að þessu óþekktur borgari í flóru Íslands.

Sá mannvænlegi hópur sem ólst upp í litla steinhúsinu í Hvannstóðstúni fékk gildan heimanmund frá foreldrum sínum í því sem mölur og ryð ekki granda. Þar fer saman næmleiki fyrir umhverfinu, þekkingarleit og virðing fyrir því sem náttúran gefur af sér. Nokkur barnanna fóru í langskólanám og öll hafa þau tengst átthögunum órjúfanlegum böndum, sum hver nú meðal gildustu stoða í borgfirsku samfélagi.

Gömlu hjónin frá Hvannstóði hafa um skeið notið góðrar aðhlynningar á Sjúkrahúsinu á Egilsstöðum. Þar hitti ég Önnu síðast nú í vetrarbyrjun æðrulausa og hýra í bragði. Nú hefur hún kvatt með skjótum hætti til að yrkja ódáinsakra, ein af þessum hetjum 20. aldar sem hollt er að minnast.

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim