Í minningu Ármanns Halldórssonar
1916–2008

Fáir Austfirðingar hafa gefið samtíð sinni jafn mikið og Ármann Halldórsson frá Snotrunesi. Hann gat sér fágætan orðstír sem kennari við Alþýðuskólann á Eiðum í röska þrjá áratugi, vinsæll jafnt af samstarfsfólki sem nemendum. Aðalkennslugreinar hans voru íslenska og danska en í báðum þeim greinum aflaði hann sér framhaldmenntunar. Kennaranum Ármanni kynntist ég ekki af eigin raun en  rithöfundinum og félagsmálafrömuðinum þeim mun betur. Greinar eftir hann tóku að birtast í austfirskum blöðum og tímaritum fljótlega eftir að hann hóf kennslu á Eiðum. Hann hafði snilldartök á íslensku máli, textinn spratt fram eins og lindarvatn, áreynslulaust að því virtist, léttur og blæbrigðaríkur en mergjaður ef svo bar undir. Barn að aldri las ég greinar eftir hann í tímaritinu Snæfelli, sem ÚÍA hóf að gefa út 1946 og var Ármann ritstjóri þess. Auk frásagna af vettvangi ungmennafélaganna birtust þar ádrepur eftir ritstjórann sem eftir var tekið, t.d. greinin „Fulltrúar ríkisins” um drykkjuskap á útihátíðum og önnur um óviðunandi samkomuhús og bágan aðbúnað þess tíma að hvers kyns félagsstarfsemi.            

Tímaritið Snæfell varð ekki langlíft en hálfum öðrum áratug síðar lyfti Ármann merki á ný með Múlaþingi, ársriti sem brátt vann sér traustan sess. Með honum stóð þar í stafni annar Borgfirðingur, Sigurður Óskar Pálsson, og var samstarf þeirra einkar endingargott. Stakkur Múlaþings reyndist hins vegar til muna of þröngur fyrir Ármann og undir hans ritstjórn kom út hátt í tugur bóka með margvíslegum sagnafróðleik.

Upp úr 1970 urðu þáttaskil í lífi Ármanns og konu hans Ingibjargar Kristmundsdóttur. Þau fluttu sig um set frá Eiðum í Egilsstaði og upp frá því urðu ritstörf og fræðimennska aðalviðfangsefni bóndans sem lyfti hverju grettistakinu á fætur öðru á meðan kraftar entust. Ritsafnið um Sveitir og jarðir í Múlaþingi sem út kom í fjórum bindum 1975–1978 hefði líklega aldrei orðið barn í brók án Ármanns sem ritstjóra og aðalhöfundar, í öllu falli ekki sú vinsæla „Búkolla“ sem enn mun vera mest notaða uppsláttarrit austanlands. Jafnhliða lagði þessi ódrepandi penni grunn að Héraðsskjalasafni Austfirðinga sem fyrsti vörslumaður þess frá stofnun 1975 til árins 1984.

Samstarf okkar Ármanns var af margvíslegum toga og allnáið um skeið. Við vorum á svipaðri bylgjulengd hvað lífsviðhorf snerti og einnig í stjórnmálstarfi var gott að leita í viskubrunn hans. Hugmyndin að Safnastofnun Austurlands óx upp úr samtölum okkar á milli og Ármann var ritari nefndarinnar sem skilaði áliti til SSA 1972 en með því var lagður grunnur að þessari nýbreytni. Ég leit oft við í Útgarði hjá þeim hjónum og enn leggur ylinn af þeim samverustundum. Úr stundaglasinu var síðasta ritið frá hendi Ármanns, minningarþættir, myndskreyttir af Elíasi bróður hans og þá runnin upp ný öld. Um ókomin ár munu margir leita í þann gilda og óbrotgjarna sjóð sem Ármann ánafnaði þjóðinni til varðveislu.

Hjörleifur Guttormsson
22. febrúar 2008


Til baka | | Heim