Í minningu Árna Stefánssonar
1927–2008

Það birti yfir Íslandi  á árunum kringum 1970, bæði til sjávar og sveita. Mest munaði um sókn í sjávarútvegi með endurnýjun fiskveiðiflotans og útfærslu landhelginnar. Bændur lögðust einnig á árar, stækkuðu bú sín og í Austur-Skaftafellsýslu breyttu þeir söndum í græna akra. Höfn í Hornafirði tók stakkaskiptum og byggði á eigin forsendum, um margt ólík sjávarplássunum í fjörðum eystra. Í Hornafirði lögðust margir á árar en einna drýgstan þátt í að breyta ásýnd byggðarlagsins til hins betra átti Árni Stefánsson. Með byggingu Hótel Hafnar á 7. áratugnum unnu fjölskyldur Árna Stefánssonar og Þórhalls Daníelssonar stórvirki sem eftir var tekið um land allt. Utan Reykjavíkur var það aðeins Akureyri sem á þessum tíma gat státað af svo glæsilegum gististað sem rúmaði jafnframt félagsstarfsemi í vistlegum sölum. Með þessu átaki varð ferðaþjónusta þriðja stoðin undir atvinnulífi í Hornafirði og áhrifanna gætti brátt langt út fyrir byggðarlagið. 
            Kennsla og skólastjórn var kjölfestan í störfum Árna í aldarfjórðung, 1951–1975, og á þeim vettvangi sem öðrum reyndist hann farsæll. Fyrst í stað virtist óráðið hvort fjölskyldan fyndi kröftum sínum stað í heimabyggð Árna í Breiðdal eða á slóðum Svövu á Höfn. Áður en teningunum var kastað 1958 höfðu þau byggt upp fallegt nýbýli á Fellsási í Breiðdal og komu þar samhliða búskap upp vísi að heimavistarskóla á meðan skólinn á Staðarborg var í byggingu.
            Leiðir okkar Árna lágu fyrst saman sumarið 1966 þegar við Helgi Hallgrímsson vorum í einskonar landkönnunarleiðangri á Suð-Austurlandi og fengum inni í skólanum á Höfn. Hótelbygging var þá á lokastigi og í mörg horn að líta hjá skólastjóranum. Samt hafði hann tíma til að fræða okkur um kauptúnið og umhverfi þess. Síðan liðu vart þau ár að fundum okkar Árna bæri ekki saman, fyrst á vettvangi austfirskra kennara en einkum þó á hótelinu hans þar sem ég kynntist vertinum í tíðum ferðum mínum um Suðausturland og landshluta á milli í þrjá áratugi. Sú alúð sem Árni lagði í starf sitt sem hótelstjóri var í senn óvenjuleg og minnti á það besta sem ég hef kynnst á þróuðum ferðamannaslóðum erlendis. Það var ekki einfalt að uppfylla í senn kröfurnar um næturró fyrir ferðalanga og samkomuhald og tilbreytingu fyrir heimamenn. Með hógværð, myndugleik og stöðugri vakt leysti Árni þetta viðfangsefni með prýði eins og annað sem hann tók sér fyrir hendur.
            Stjórnmálaafskipti okkar voru á ólíkum vettvangi en gagnkvæmur áhugi á félags- og menningarmálum brúaði bilið. Ég minnist fjölda stunda þar sem vertinn tyllti sér niður hjá gestinum og farið var yfir sviðið nær og fjær. Um málefni Hafnar og nágrennis hafði Árni mörgu að miðla og samspil ferðaþjónustu og umhverfisverndar var nærtækt umræðuefni. Árni og Svava ræktuðu eigin garð og sveitarfélagsins sem þau voru samgróin. Jafnframt gáfu þau börnum sínum vegarnesti sem þau hafa kunnað að nýta. Hornafjörður og samfélagið sunnan Vatnajökuls mun lengi fá notið verka frumkvöðulsins  frá Felli.

Hjörleifur Guttormsson
29. mars 2008


Til baka | | Heim