Arnþrúður Gunnlaugsdóttir (1921–2008)
Minningargrein sem birtist í Morgunblaðinu á útfarardag

Aðeins þrjár vikur liðu frá því að við Kristín síðast heimsóttum Arnþrúði mágkonu mína þar til okkur barst andlátsfréttin. Hún kom ekki á óvart. Allt frá því heilablóðfall lagði þessa hraustu og glaðværu konu í rúmið fyrir þremur árum hefur smám saman hallað undan fæti. Þrátt fyrir afar góða umönnun á Sjúkrahúsi Egilsstaða og vökula nærveru barna hennar var hún sjálf farin að þrá hvíldina eilífu.
            Fáar konur hafa verið mér nákomnari um dagana og minningarnar hrannast upp. Ég var á sjöunda ári þegar ljóst var að hún myndi bindast Sigurði bróður tryggðaböndum. Þá var hún nýútskrifuð eftir tveggja ára nám við Húsmæðraskólann á Hallormsstað. Þangað höfðu lagt leið sína tvær ungmeyjar norðan af Langanesi, Arnþrúður og fóstursystir hennar Þrúður Guðmundsdóttir. Stofninn sem þær uxu upp af var sterkur, hertur í lífsbaráttu útskagans og með sér flutti Arnþrúður frásagnir af umhverfi sem var framandi okkur dalbúum við Lagarfljót, sögur um reka og sel og æðarvarp.
            Það var heimsstríð og sú gerjun rétt að byrja sem fylgdi í kjölfarið hérlendis. Sigurður hafði numið smíðar í Laugaskóla, prýðilega hagur og hafði nokkra atvinnu af iðn sinni. Þéttbýli var þá enn óþekkt á Héraði en á Hallormsstað voru opinber umsvif með skóla og skógrækt. Þau Sigurður stofnuðu nýbýli í útjaðri skógarins þar sem áður hét Geitagerði og kölluðu á Sólheimum. Búskapurinn hófst í hálfum bragga en brátt reis af grunni stæðilegt steinhús sem enn stendur. Ég minnist tíðra heimsókna þangað yfir 5 óbrúaða læki sem áttu það til að verða að beljandi ám, samræðna um allt milli himins og jarðar yfir góðgerðum og stundum var gist svo dögum skipti. Glaðværð og þrautseigja einkenndu heimilið þrátt fyrir lítil veraldleg efni en mikla innistæðu í fimm börnum.
            Þáttaskil urðu þegar þau Arnþrúður og Sigurður fluttu á ný í Hallormsstað haustið 1955 og tóku þar við búrekstri föður míns. Hér stóð Arnþrúður fyrir stóru heimili með símaþjónustu og miklum gestagangi í nær tvo áratugi. Hún kunni þá list að stjórna af hægð og án áreynslu. Það reyndi mikið á hana þessi árin, ekki síst eftir að eiginmaðurinn veiktist og féll frá á miðjum aldri. Föður mínum var hún stoð og stytta síðasta áratuginn sem hann lifði og börnin nutu góðs atlætis og leituðu burt til mennta. Þrátt fyrir mótlæti var þetta blómaskeið í lífi Arnþrúðar.
            Nokkru eftir fráfall Sigurðar giftist Arnþrúður öðru sinni ágætum manni, Einari Hallasyni frá Sturluflöt. Þau komu sér upp fallegu heimili á Egilsstöðum þar sem ég oft naut gestrisni þeirra. En einnig þar barði dauðinn að dyrum fyrirvaralaust þegar Einar féll frá á góðum aldri. Eftir það dvaldi Arnþrúður um skeið í Reykjavík í grennd við börn sín og barnabörn. En hugurinn leitaði austur og í fjórða sinn kom hún undir sig fótum, nú í Einbúablá á Egilsstöðum.
            Arnþrúður fylgdist ætíð vel með þjóðmálum og lá ekki á skoðunum sínum. Að leiðarlokum þökkum við Kristín henni vináttu og stuðning og ótal skemmtilegar samverustundir.

 

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim