Bergþór Jóhannsson (1933–2006) Stundum veltir maður fyrir sér þeim gjörólíku heimum sem skildu að börn sveitanna um miðja síðustu öld og æskufólk sem óx upp í kaupstöðum landsins um svipað leyti. Um skeið var bilið brúað með þeirri uppeldisveitu sem kallaðist „að fara í sveit”. Býsna margir urðu hennar aðnjótandi áður en vélmenning og reglugerðir bundu enda á slíkan lúxus. Framsýnir menn þess tíma sem nú liggja undir skömmum allt frá Jónasi frá Hriflu til Einars Olgeirssonar og Hannibals opnuðu leiðir í hina áttina fyrir æsku sveita og kauptúna til að sækja í gagnfræðanám og komast inn í menntaskóla við hlið barna góðborgara og síðan áfram í háskóla. Fræðslulögin frá 1946 með sitt landspróf voru ekki alls staðar vel þokkuð á þeim tíma en þau gerðu gæfumuninn fyrir margt dreifbýlisbarnið. Þessar hugrenningar vakna er við kveðjum Bergþór Jóhannsson frá Goðdal, bæ í luktum afkima inn af Bjarnarfirði syðra á Ströndum. Hann var sendur að heiman til náms í Reykjaskóla og þar var hann þegar snjóflóð hreif burt í einu vetfangi æskuheimili hans, móður og nokkur systkini. Ég leit við í þessum gróðursæla dal fyrir nokkrum árum og skoðaði aðstæður, hafði áður séð framan í snjóflóð og mannfórnir af þeirra völdum austanlands. Bergþór hefur sjálfur í blaðaviðtali lýst á eftirminnilegan hátt aðstæðum sínum og áhugamálum í æsku (Sjá Morgunblaðið Lesbók 16. og 23. desember 2000). Hann minntist þar móður sinnar sem hafi verið greind kona, hlédræg, hljóðlát og blíð og við fræðumst þar um áhuga hans á sauðfé og nánasta umhverfi og síðan hvernig klippt var á strengi er honum var í skóla flutt harmafregnin um snjóflóðið. Uppvöxturinn í Goðdal, óvenjulegt næmi og fróðleiksfýsn virðast þrátt fyrir allt mótlætið hafa beint Bergþóri inn á braut grasafræði sem hann þegar á öðru ári í menntaskóla ákvað að helga sig. Faðir hans sem var búfræðingur frá Hólum átti óafvitandi sinn þátt í að kveikja áhuga, sem hjá Bergþóri beindist að blómplöntum í fyrstu og mosaflóran kom seinna til sögunnar er hann var kominn í háskólann í Göttingen. „Þjóðverjar áttu þá engan mosafræðing” sagði hann löngu síðar. Það hljómar ótrúlega, en stríðið hafði víða tekið sinn toll og sárin þá enn langt frá því að vera gróin. Eflaust hefur Bergþór snemma skynjað að heima biði hans óplægður akur á því sviði sem hann ætlaði að helga líf sitt sem vísindamaður. Vegarnestið til að sinna því brautryðjendastarfi sótti hann sér í Oslóarháskóla. Þá þegar hafði hann fundið sinn lífsförunaut, grasafræðinginn Dóru, sem bjó honum það skjól og umhverfi sem er óskadraumur þeirra sem kafa djúpt. Uppskeran af starfi Bergþórs er í senn einstæð og söguleg. Hann tíndi í fyrstu saman þá fáu mola á fræðasviðinu sem áður höfðu fallið til eftir skyndiheimssóknir erlendra sérfræðinga, jók við og bætti með þrotlausu starfi í fjóra áratugi uns allt mosasviðið var kortlagt í hólf og gólf, skráð, teiknað og lýst í 21 bindi og öllum tegundunum rösklega 600 gefið íslenskt heiti líkt og sauðkindum bernskunnar í Goðdal. Mosasafnið í vörslu Náttúrufræðistofnunar fertugfaldaðist í hans umsjá. Sumt af því féll til vegna lögboðinnar úttektar á svæðum undir fyrirhugaðar framkvæmdir svo sem í Þjórsárverum eða við Kárahnjúka en meirihlutanum safnaði Bergþór að eigin frumkvæði, fyllti í eyður og greindi aðsend eintök. Enginn held ég hafi gengið bónleiður frá búð hans. Sjálfur leitaði ég til hans eftir greiningu og allt kom það til baka vandlega flokkað og frágengið. Bergþór gætti þess að dreifa ekki kröftum sínum og eðlislæg hlédrægni hjálpaði honum eflaust til að halda sig nær eingöngu að fræðistörfunum. Hann hafði hins vegar skoðanir jafnt á mönnum sem málefnum og næman skilning á þörfinni fyrir náttúruvernd. Í áðurnefndu viðtali vakti hann athygli á gildi mosaþekjunnar fyrir gróðurframvindu og gróðurvernd. „Menn ættu því að bera virðingu fyrir mosunum sem klæða verulegan hluta landsins og umgangast gróðurinn varlegar en þeir hafa gert hingað til. ... Sjaldgæfustu tegundirnar þyrfti að vernda á einhvern hátt. Nokkrar tegundir virðast hafa horfið alveg á síðustu áratugum og vaxa líklega ekki hér lengur. Ástæðan er í sumum tilvikum óvarleg meðferð mannsins á náttúrunni og virðingarleysi fyrir þeim gróðri sem fyrir er.” Þegar við nú fylgjum Bergþóri síðasta spölinn eru í brennidepli málefni Náttúrufræðistofnunar Íslands sem var starfsstöð hans. Safnið sem hún á að varðveita lögum samkvæmt hefur í meira en hálfa öld búið við vanrækslu af hálfu stjórnvalda. Fátt er þjóð til meiri vansæmdar en að vanrækja rannsóknir á eigin landi og gæta ekki þess fengs sem hver kynslóð bætir við. Höfuðsafn þjóðarinnar á sviði náttúrufræða, jafnt til fræðslu og vörslu vísindagagna, má ekki stundinni lengur búa við þá niðurlægingu sem nú viðgengst, hvað þá lenda í skæklatogi um staðsetningu. Slík stofnun á sem aðrar hliðstæðar hvergi annars staðar heima en í höfuðstað landsins.
Hjörleifur
Guttormsson |