Birgir Stefánsson
1937–2011

Andlát gamals vinar, Birgis Stefánssonar, frá Berunesi við Reyðarfjörð kom ekki á óvart né heldur að hann kaus að hverfa af sviðinu í kyrrþey. Dauðastríð hans stóð í nokkur misseri og lengur en okkur var ljóst. Ég heyrði í honum símleiðis öðru hvoru síðasta árið og hann gerði sér grein fyrir að hverju dró. Við andlát hans hrannast upp minningar frá löngu samstarfi á stjórnmálasviðinu, einkum í Neskaupstað, þar sem hann var búsettur í hálfan annan áratug eftir nám á Eiðum og í MA. Fyrstu fimm árin var hann kennari við skólana í bænum, en síðan bæjargjaldkeri og ritari bæjarstjórnar. Samstarf hans við Bjarna Þórðarson bæjarstjóra var náið og Birgir tók að sér ýmis verkefni í þágu bæjarfélagsins, m.a. á menningarsviði. Hann var áhugasamur um leiklist, naut sín á sviði með fágaða framkomu og skýra framsögn. Á sjöunda áratugnum starfaði hann með Leikfélagi Neskaupstaðar, gerðist formaður þess og jafnframt formaður Bandalags íslenskra leikfélaga um skeið. Sem formaður menningarnefndar kaupstaðarins undirbjó hann og stýrði glæsilegri hátíðardagskrá á fjörutíu ára afmæli Neskaupstaðar 1969.
            Ég minnist samstarfs við Birgi innan Alþýðubandalagsins eystra þar sem hann átti m.a. sæti í stjórn félagsins í Neskaupstað og kom að mörgum málum, innsti koppur í búri þegar á reyndi, m.a. í kosningum með fjölþætt tengsl sín og góða skipulagshæfileika. Þetta voru uppgangstímar fyrir Alþýðubandalagið sem stjórnmálaflokk og hart var tekist á um forystu í bæjarmálum, þar sem sósíalistar höfðu náð meirihluta 1950 og héldu honum í hálfa öld. Birgir hafði þegar á námsárum skipað sér í róttæka sveit, tók þátt í starfi Æskulýðsfylkingarinnar og Alþýðubandalagsins eftir stofnun þess. Um árabil störfuðum við saman í ritnefnd vikublaðsins Austurlands með Bjarna Þórðarsyni ritstjóra. Fundað var vikulega og skipt verkum. Bar þá margt á góma og var oft létt yfir umræðum. Sama átti við um Nesprent þar sem blaðið var prentað og útgefendur þess voru inni á gafli í prentsmiðjunni með Halla prentara glaðbeittan við setjaravélina. Birgir skrifaði talsvert í blaðið og birti þar ljóð og sögur í jólablöðum, en hann var vel hagmæltur og bókelskur.
            Á ýmsu gekk í einkalífi Birgis, sem eignaðist góða förunauta og mannvænleg börn. Á hann sótti stundum þunglyndi, sem hann þó sigraðist á. Á seinnihluta ævinnar varð kennsla aftur hans aðalstarf, fyrst á heimaslóð á Fáskrúðsfirði en síðan lengst af syðra. Hann aflaði sér kennararéttinda og var farsæll í starfi. Börnin voru honum stuðningur og gleðigjafar og á sumrin ferðaðist hann víða hér heima og erlendis. Við stofnun Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs gerðist Birgir þar félagi og studdi við starfið í Hafnarfirði. Á liðnu hausti var hann í hópi 100 félaga og stuðningsmanna VG sem skoruðu á forystu flokksins að beita sér gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Við Kristín kveðjum Birgi með þakklæti og virðingu eftir langa samfylgd.

Hjörleifur GuttormssonTil baka | | Heim