Björk Einarsdóttir

f. 20.apríl 1930 d. 8. júní 2003

Æskuslóð Bjarkar var Eskifjörður kreppuáranna með mikilli fátækt hjá þorra fólks en fjölskrúðugu félags- og menningarlífi sem íbúarnir lögðu til sjálfir. Faðir hennar Einar Ástráðsson var læknir staðarins, farsæll og vinmargur og skipaði sér í sveit með róttækum öflum þess tíma. Starf einyrkjalæknis var í senn bindandi og vandasamt og kjörin í litlu samræmi við álag og einangrun. Björk mótaðist af þessu umhverfi, þroskaði með sér ríka réttlætiskennd og smekk fyrir góðum bókum og handmennt. Menntaskólaár syðra urðu henni notadrjúg og brátt lágu leiðir hennar og Eggerts Brekkan læknis saman. Með því var spunninn meginþráður örlaga þeirra beggja.

Leið okkar og Brekkanfjölskyldunnar lá fyrst saman þegar Eggert réðist yfirlæknir að Fjórðungssjúkrahúsinu í Neskaupstað 1976. Þá höfðu vegir þeirra legið víða, einkum um Svíþjóð og Noreg, en hér var komið í höfn þar sem þau áttu heima í 17 ár. Sonur þeirra Einar og dóttirin Estrid voru flogin úr hreiðri en yngsti sonurinn Eggert Friðrik í uppvexti. Nágrennið við þau hjón og gagnkvæm tengsl eru eftirminnileg og auðguðu tilveruna. Um margt voru þau ólíkrar gerðar en bættu hvort annað upp, hún raunsæ og ákveðin, réði ríkjum innanstokks og gerði eiginmanninum kleyft að helga sig krefjandi starfi. Bæði voru þau andsnúin hvers kyns prjáli og sýndarmennsku en höfðu glöggt auga fyrir lit og formi, jafnt í náttúru sem hinu manngerða. Björk hafði næma kímnigáfu sem kom oft á óvart bak við alvörugefið fas. Bros hennar leystist úr læðingi af skyndingu magnað og tvírætt. Hún kunni að búa sér og sínum höfðinglegt umhverfi. Jólaboðin hverfa ekki úr huga manns, áramót og utanlandsferðir kvennanna. Þess á milli eftir atvikum grár eða ljúfur hversdagur. Við þökkum samfylgdina og höldum þétt um góðar minningar.

Kristín og Hjörleifur


 


Til baka | | Heim