Einar Bragi – að leiðarlokum
f. 7. apríl 1921 - d. 26. mars 2005

Með Einari Braga er fallinn frá einn af stólpunum í menningar- og sjálfstæðisbaráttu Íslendinga á öldinni sem leið. Hann var í hópi þeirra ungu manna sem reistu merki um miðja 20. öldina með tímaritinu Birtingi. Einar var útgefandi þess fyrstu árin og síðan meðritstjóri. Tímarit þetta færði ferska vinda inn í umræðu um menningarmál hérlendis, kynnti fjölda höfunda, list og listastefnur og vakti máls á nýjum viðfangsefnum eins og húsagerðarlist og íslenskum arfi á því sviði. Sem rithöfundur haslaði Einar Bragi sér framan af völl sem ljóðskáld og sendi frá sér ekki færri en fimm ljóðabækur á árunum 1950-1960. Þeim fylgdi nýr tónn í íslenskri ljóðlist en tengslin við hið hefðbundna voru vel sýnileg. Þetta var fersk og tær lýrik, oft með rómantísku ívafi og víða leitað fanga um yrkisefni. Á þessum áratug íslensks nóbelskálds bar Birtingshópurinn vott um að þróttmikill nýgræðingur væri í uppvexti í skjóli stórskógarins. Ég kynntist Einari lítillega á þessum árum, minnist stunda með honum á Laugavegi 11, afstæður aldursmunur þá meiri en síðar á ævi okkar.

Seinna endurnýjuðust þessi kynni við breyttar aðstæður. Ljóðskáldið hafði þá hægar um sig en áður því að upp að hlið hans var kominn rithöfundur sem helgaði sig upprifjun á liðinni tíð og hlúði að minnum um fólk og lífsbaráttu genginna kynslóða. Eðlilega tengja menn Einar öðru fremur við fæðingarbæ sinn Eskifjörð sem hann hefur lagt ómetanlega rækt við með heimildaritinu Eskju í mörgum bindum. Ég komst hins vegar brátt að raun um að rætur hans lágu víða, ekki síst um Suðausturland frá Suðursveit til Djúpavogs. “Þá var öldin önnur” endurspeglar þennan bakgrunn og hug til ættingja sem áttu ríkan þátt í mótun hans í æsku. Sléttaleiti og Kambshjáleiga eru hluti af þessari veröld sem var. Það hefur verið gott að eiga Einar Braga að förunaut við upprifjun á liðinni tíð í sögu Austurlands, heimildir hans traustar og framsetningin skýr og skemmtileg.

Síðast komst ég í huglægt ferðalag með Einari Braga á vit norðurslóða. Hann tendraðist upp af kynnum við lendur og bókmenntir Sama og hafði fyrir fáum árum forystu um stofnun vináttufélags með þeim hérlendis. Nær árlega sendi hann mér einkar þekkileg rit með ljóðaþýðingum sínum af kveðskap þessara aðkrepptu granna okkar. Þar er slegið á strengi af mýkt og festu sem einkenndu skáldið og manninn Einar Braga. Hafi hann heila þökk fyrir leiðsögn sína og stuðning við góðan málstað allt sitt líf.

Hjörleifur Guttormsson


 


Til baka | | Heim