Flosi Ólafsson
f. 27. okt. 1929– d.  24. okt.2009

Ungdómurinn festir gjarnan auga á þeim sem eru nokkrum árum eldri, eða þannig fór mér á menntaskólaárum á Akureyri um miðja síðustu öld. Einn í þeim hópi var Flosi Ólafsson tveimur bekkjum ofar í skólanum, hnellinn og glaðvær og til alls líklegur þá slegist var á göngum í frímínútum. Þann 31. janúar 1952 kviknaði í stóru timburhúsi við Hafnarstræti 66 nær beint niður af MA. Þar bjuggu þá þrjár fjölskyldur, á aðalhæð Pétur Lárusson kaupmaður. Austarstormur var á og magnaði eldinn svo að Sjónarhæð og fleiri hús voru í hættu. Þetta var um hádegisbil og þustu nemendur niður brekkuna til að fylgjast með eldsvoðanum. Stóðu sumir álengdar en aðrir gengu vasklega fram við að bjarga innanstokksmunum. Flosa héldu engin bönd. Hann hentist að brennandi húsinu, sparkaði upp glugga á neðstu hæð, en skarst þá illa á fæti og varð frá að hverfa alblóðugur. Svo skjótráður var hann og sást ekki alltaf fyrir. Þessi sena hefði sómt sér í hvaða bardaga sem var í Íslendingasögum. Slot þetta hafði verið byggt 1896 sem fundarhús, m.a. fyrir Gleðileikafélagið og söngfélagið Gígjuna og líklega hefur Flosi fengið í þessari eldraun neista fyrir lífshlaupið.

Þetta voru eldfimir tímar, einnig í heimsmálum, þar sem fylkingar sigu saman úr austri og vestri og nýfrjálst Ísland var lagt undir herstöð þvert ofan í gefin fyrirheit. Í MA skiptust menn í hópa í viðhorfi til kjarnorkublikunnar og umræður í málfundafélaginu Huginn snerust oftar en ekki um heimsmálin og var jafnan tekist á um formennsku í félaginu. Einnig þar kom Flosi við sögu á eftirminnilegan hátt þegar hann var kosinn formaður 12. október 1951 með 84 atkvæðum en sá mótframbjóðandi sem næstur kom fékk 81 atkvæði. Þá var hálft ár liðið frá endurkomu bandaríska hersins. Skólastjórn og   hægri mönnum í skólanum leist ekki á þennan nýja formann á viðsjárverðum tímum. Settur skólameistari var þá Brynleifur Tobíasson í fjarveru Þórarins Björnssonar sem var í boðsferð vestanhafs. Umdeild tveggja vetra landsprófsdeild var þá við skólann og hafði starfræksla 1. bekkjar ekki hlotið blessun menntamálayfirvalda en nemendur „námsflokksins“ tekið þátt í kosningunni. Notaði skólameistari það þegar næsta dag, að höfðu samráði við Björn Ólafsson þá menntamálaráðherra, sem tylliástæðu til að lýsa kjör Flosa ógilt.Var  kosningin þá endurtekin en leikar fór svo að Flosi var aftur kjörinn formaður, nú með 127 atkvæðum gegn 112. Í kjölfarið komu eftirminnilegir átakafundir.

Skólavist Flosa nyrðra varð nokkuð skrykkjótt og 6. bekk las hann utanskóla á Staðarstað með vini sínum Stefáni Scheving undir handleiðslu Þorgríms prests. Báðir luku þeir stúdentsprófi nyrðra vorið 1953 og flaug Flosi hæst í leikfimi. Þessi óvenjulegi Vesturbæingur reyndist líka fimur þegar út í lífið kom, hvort sem var á sviði eða með penna í hönd. Bekkjarbróðir hans að norðan, Kjartan Ólafsson ritstjóri Þjóðviljans um skeið, vissi gjörla hvað í æringjanum bjó og réð hann til ritstarfa sem glöddu okkur lesendur blaðsins meira en flest annað í heilan áratug.

 

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim