Í minningu Geirs Gunnarssonar
1930–2008

Geir Gunnarsson hafði setið á Alþingi í nær tvo áratugi þegar ég kom óvænt inn á þann vettvang en síðan áttum við þar sæti saman í rösk 12 ár. Áður höfðum við hist alloft á vettvangi Alþýðubandalagsins en ekki kynnst að ráði enda Geir afar hógvær og hlédrægur. Rætur hans lágu í Hafnarfirði og þangað sótti hann öðru fremur sinn stuðning, einnig eftir að Reykjaneskjördæmi varð til frá og með árinu 1959. Í Hafnarfirði hóf Geir sinn pólítíska feril aðeins hálfþrítugur að aldri og hafði þá þegar gegnt trúnaðarstörfum fyrir bæjarfélagið. Fjármál og viðskipti urðu snemma hans sérsvið og þekkingu sinni og yfirsýn í þeim efnum miðlaði hann jafnt í þingflokki Alþýðubandalagsins og í fjárlaganefnd þingsins. Í þeirri nefnd átti hann sæti drjúgan hluta af sínum þingferli, samfellt á tímabilinu 1963–1987, en þess utan einkum í nefndum um atvinnumál. Árin sem Alþýðubandalagið átti aðild að ríkisstjórn 1978–1983 þótti Geir sjálfsagður formaður fjárhags- og viðskiptanefndar. Lá við borð að hann fengi á sig svip hins ábyrga embættismanns eftir vakt í aldarfjórðung á þessum mikilvæga vettvangi.
            Geir naut almennra vinsælda og virðingar sem þingmaður. Lagðist þar á eitt  hógværð hans og samviskusemi og sú staðreynd að hann tók sjaldan þátt í pólitískum skylmingum í þingsal. Skorti þó ekki á að hann hefði skoðanir á mönnum og málefnum og á vissum ögurstundum reyndist hann stefnufastari en flestir aðrir samflokksmenn. Hann fylgdist einnig vel með umræðum og lét sig sjaldan vanta á þingfundum þegar nefndarstörfum sleppti. Geir hafði næmt skopskyn og í félagahópi og á ferðalögum var hann oft hrókur fagnaðar.
            Eftir að Geir lét af þingmennsku 1991 tóku við ný verkefni þar sem reynsla hans og bakgrunnur nýttust vel. Samfylgdar hans er gott að minnast.

Hjörleifur Guttormsson
8. apríl 2008


Til baka | | Heim