Í minningu Geirs Gunnarssonar Geir Gunnarsson hafði setið á Alþingi í nær tvo áratugi þegar ég kom óvænt inn á þann vettvang en síðan áttum við þar sæti saman í rösk 12 ár. Áður höfðum við hist alloft á vettvangi Alþýðubandalagsins en ekki kynnst að ráði enda Geir afar hógvær og hlédrægur. Rætur hans lágu í Hafnarfirði og þangað sótti hann öðru fremur sinn stuðning, einnig eftir að Reykjaneskjördæmi varð til frá og með árinu 1959. Í Hafnarfirði hóf Geir sinn pólítíska feril aðeins hálfþrítugur að aldri og hafði þá þegar gegnt trúnaðarstörfum fyrir bæjarfélagið. Fjármál og viðskipti urðu snemma hans sérsvið og þekkingu sinni og yfirsýn í þeim efnum miðlaði hann jafnt í þingflokki Alþýðubandalagsins og í fjárlaganefnd þingsins. Í þeirri nefnd átti hann sæti drjúgan hluta af sínum þingferli, samfellt á tímabilinu 1963–1987, en þess utan einkum í nefndum um atvinnumál. Árin sem Alþýðubandalagið átti aðild að ríkisstjórn 1978–1983 þótti Geir sjálfsagður formaður fjárhags- og viðskiptanefndar. Lá við borð að hann fengi á sig svip hins ábyrga embættismanns eftir vakt í aldarfjórðung á þessum mikilvæga vettvangi. Hjörleifur
Guttormsson |