Guðrún Aðalsteinsdóttir frá Vaðbrekku Sláttumaðurinn slyngi heggur oft fyrirvaralaust. Fregnin um lát Guðrúnar Aðalsteinsdóttur frá Vaðbrekku kom mér á óvart þótt hún væri orðin roskin og farin að láta sig. Með henni er gengin kona sem setti mark sitt á samfélagið á Fljótsdalshéraði frá ungum aldri og kom ótrúlega víða við. Ég man eftir henni sem unglingur á Hallormsstað þar sem hún kenndi matreiðslu við Húsmæðraskólann í nokkra vetur á árunum 1946-1950. Á Hallormsstað kynntist hún Jóni Jónssyni ættuðum úr Fellum en þá kenndur við Sauðhaga þar sem Magnea systir hans var húsfreyja. Jón var vinnumaður víða á Héraði og starfaði hjá Hrafni við skólabúið þegar þau Guðrún gerðust lífsförunautar. Hann hafði áður verið vinnumaður hjá föður mínum og minnist ég hve góður hann var við okkur krakkana. Eftir viðkomu að Skriðuklaustri hófu Jón og Guðrún búskap í Klausturseli á Jökuldal þangað sem þau fluttu árið 1954 með kornunga syni sína, Hrafnkel og Aðalstein. Í Klausturseli bjuggu þau í 15 ár en þá tóku synirnir við búrekstri. Í Klausturseli bættust þeim þrjú mannvænleg börn, Jón Hávarður, Rósa og Ingibjörg. Síðustu búskaparárin á Jökuldal voru þeim örðug vegna harðinda. Mun skuldasöfnun hafa ráðið því að Guðrún réðist á ný sem matreiðslukennari á Hallormsstað árin 1967-70. Í Egilsstaði fluttu þau árið 1971 þar sem þau komu sér upp nýju heimili í Útgarði. Jón var þar lengst af starfsmaður hjá byggingafélaginu Brúnási en Guðrún sinnti matseld á hótelum og í mötuneyti Menntaskólans á Egilsstöðum frá því skólinn tók til starfa 1979 uns hún varð sjötug. Mun margt ungviðið sem þar gekk um garð minnast hennar með hlýhug. Mann sinn missti hún árið 1992 en hélt heimili til loka. Guðrún aflaði sér í æsku góðrar undirstöðu á þeirrar tíðar vísu með námi í Alþýðuskólanum á Eiðum og eftir það sérmenntunar í Húsmæðrakennaraskólanum í Reykjavík. Hún var alla tíð bókhneigð og samdi í kyrrþey eigin ljóð og smásögur. Á Egilsstöðum kom Guðrún fljótlega inn í raðir Alþýðubandalags Héraðsmanna og varð einn af máttarstólpum þess félags og að lokum heiðursfélagi. Fylgdi hún Alþýðubandalaginu að málum allt þar til flokkurinn klofnaði á síðasta ári og halla tók til Samfylkingar. Valdi hún þá að styðja við nýjan flokk til vinstri með grænum áherslum. Þannig sló hjarta hennar. Guðrún var greind kona eins og hún átti kyn til, víðlesin og fjölfróð og fylgdist vel með þjóðmálum. Hún var hlý í viðmóti, hæglát en gáskafull undir niðri og kunni vel að segja sögur. Oft miðlaði hún úr viskubrunnum sínum á mannamótum og skemmtunum og kætti viðstadda með græskulausri gamansemi. Þau störf og félagsleg verkefni sem Guðrún tók að sér voru leyst hávaðalaust. Við áttum góða samleið í stjórnmálum. Guðrún var ein af mörgum sem stöppuðu í mig stálinu og héldu þingmannsstaula við efnið. Að leiðarlokum gleðst ég yfir að hafa kynnst henni og hennar fólki. Við Kristín sendum börnum hennar og öðrum ástvinum samúðarkveðjur. Hjörleifur Guttormsson
|