Gunnar Ólafsson
21. júní 1911 – 29. desember 2003

Gunnar Ólafsson var maður lágur vexti og vel limaður, snar í hreyfingum og fylginn sér og varð þar lítil breyting á fram á níræðisaldurinn. Rætur átti hann á landinu vestanverðu en Austurland varð starfsvettvangur hans lungann úr ævinni og kennsla og skólastjórn meginviðfangsefni. Undir það var hann vel búinn eftir nám í Flensborg og kennarapróf og bætti litlu síðar við sig íþróttakennararéttindum. Eftir fyrstu sporin sem kennari á ýmsum stöðum suðvestanlands á árum heimskreppunnar réðist hann til kennslu að Búðum í Fáskrúðsfirði haustið 1939 þá nýkvæntur lífsförnaut sínum Ingibjörgu Magnúsdóttur. Sjö árum síðar fluttu þau með stækkandi barnahóp til Neskaupstaðar þar sem Gunnar tók við stjórn barnaskólans. Skólastjóri var hann í aldarfjórðung, rækti það starf af stakri alúð og bjó fjölda ungmenna undir lífsstarf og frekara nám. Skólinn undir hans stjórn var ótvírætt í fremstu röð og kom þar til samvalinn hópur vel menntaðra og áhugasamra kennara.

Sá sem þetta skrifar náði kornungur að kynnast lítillega forystu ungmennafélaganna eystra um miðja síðustu öld. Það var glæsilegur hópur sem þar fór fyrir og þar munaði um Gunnar Ólafsson sem þá var um fertugt og orðinn reyndur í starfi að æskulýðsmálum og íþróttum. Ásamt Stefáni Þorleifssyni var hann helsti merkisberi æskulýðsstarfs í Neskaupstað, þeir félagar samhentir og skiptust á um forystu heima og á víðari vettvangi, m. a. var Gunnar formaður ÚÍA um árabil. Íþróttir og útivist voru á dagskrá árið um kring, starfið fjölþætt og snerist um fleira en fótbolta, því að á dagskrá voru einnig frjálsar íþróttir, sund, skíði og skautaferðir eftir því sem aðstæður frekast leyfðu. Skíðaskálinn á Oddsdal var reistur og litlu ofar á dalnum byggði Gunnar sér lítinn bústað þar sem fjölskyldan undi oft langdvölum yfir sumarið. Skíðaferðir voru Gunnari sérstaklega hjartfólgnar, þar á meðal langar göngur um páska, jafnvel allt til Snæfells. Eftir að Gunnar lét af skólastjórn sökum aldurs en í fullu fjöri gafst tími til að sinna enn frekar hugðarefnum. Af mikilli framsýni gerði hann tillögu um skíðamiðstöð sunnan Oddskarðs og vann málinu fylgi þvert á allan byggðaríg.

Ræktun lands og lýðs voru einkunnarorð ungmennafélaga og Gunnar í hópi þeirra sem létu sig dreyma um landvernd og ræktun skóga. Með Eyþóri Þórðarsyni og fleirum gekkst hann 1948 fyrir stofnun Skógræktarfélags Neskaupstaðar og var formaður þess um áratugi. Af því starfi spratt Hjallaskógur ofan byggðar í Neskaupstað, nú skjólgott útivistarsvæði. Gunnar lagði ár hvert fram ómælt starf við gróðursetningu, viðhald girðinga og síðar grisjun. Umbunin fólst í að sjá árangur verka sinna en aldrei var spurt um laun í krónum og aurum. Þegar Hjallaskógur var orðinn staðreynd var sótt fram með gróðurvernd í öllu landi kaupstaðarins að markmiði. Einnig tók hann að sér veðurathuganir og eftirlit vegna snjóflóða ofan byggðar, enn léttur á sér kringum sjötugt. Gunnar var í senn ósérhlífinn hugsjónamaður og maður framkvæmda, þolgóður með afbrigðum, léttur í lund og dagfarsprúður. Hann var sósíalisti að lífsskoðun og náttúruverndarmaður, áhugasamur um þjóðmál og alþjóðamál fram í andlátið og aldrei í vafa um með hverjum hann ætti samleið í stjórnmálum.

Samstarf og kynni okkar Kristínar við Gunnar og Ingibjörgu og börn þeirra hafa verið mikil og náin og héldust eftir að þau fluttu suður. Nú þegar Gunnar er allur þökkum við það liðna og sendum fjölskyldu hans og vandamönnum kveðjur að austan.

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim