Hallgerður Gísladóttir
1952–2007

Seldalur gengur suðvestur úr Norðfjarðarsveit kringdur háfjöllum og inn af honum Lambeyrarskarð lægst til Eskifjarðar í 800 m hæð. Þetta er gróðursæl snjóakista og mikill vatnagangur þegar vorar. Þarna urðu ábúendaskipti rétt eftir 1900 þegar Friðrik Jónsson og Guðríður Guðmundsdóttir tóku að yrkja jörðina og eignuðust Sigríði fyrir dóttur og fjóra syni einn af öðrum, Gísli þeirra elstur. Friðrik bóndi féll frá rétt hálffimmtugur 1920 en Guðríður hélt áfram búskap í tvo áratugi með synina sér við hlið en dóttirin Sigríður varð snemma húsfreyja í Grænanesi utar í sveitinni. Gísli var námfús og gekk í Eiðaskóla við upphaf kreppunnar en tók við jörðinni að móður sinni látinni og deildi sambýli með bræðrum sínum Jóni og Guðlaugi. Þá var komin til sögunnar ung og fönguleg mær seyðfirsk, Sigrún Dagbjartsdóttir frá Hjalla við Vestdalseyri. Einnig hún hafði aflað sér góðs vegarnestis á þeirrar tíðar vísu í Húsmæðraskólanum á Hallormsstað. Ungu hjónin í Seldal voru vel undir lífið búin og þar var laukur í túni.

Úr þessum jarðvegi uxu börnin níu talsins, Hallgerður sú fimmta í röðinni. Árin sem ég kenndi við Gagnfræðaskólann í Neskaupstað kynntist ég tveimur úr þessum hópi sem nemendum, systrunum Ínu og Hallgerði. Báðar voru þær í fremstu röð, fluttu með sér andblæ og reynslu sem kennarinn fékk að kynnast af mæltu og rituðu máli þeirra og margir hafa notið síðan. Hallgerður var hlédrægari en eldri systirin, íbyggin og þó kankvís. Þær systur fóru með glans gegnum nálarauga landsprófsins og við báðum fannst mér blasa menntavegurinn í striklotu. Áhugi þeirra beindist hins vegar í margar áttir og efnin heima fyrir voru ekki mikil. Ína festi snemma ráð sitt og lifði sig inn í þjóðsagnaheim og sögu æskuslóðanna sem margir hafa síðan notið af leiðsögn hennar í sumarferðum. Hallgerður fór að vinna fyrir sér og hélt svo á hússtjórnarskóla á Jótlandi. En hún kom til baka og settist í framhaldsdeild Gagnfræðaskólans haustið 1970, reynslunni ríkari og búin að ráða við sig hvert halda skyldi. Það var unun að kenna þessum námsfúsa hópi íslensku, þýsku og náttúrufræðigreinar. Í hlut Hallgerðar komu aðeins ágætiseinkunnir, hvar sem borið var niður. Hún geislaði af áhuga, upplitsdjörf og broshýr en skildi ekki við sig eðlislæga varfærni. Þannig fetaði hún sinn stíg og fékk snemma til fylgdar við sig Árna Hjartarson, fótvísan og skemmtilegan ævifélaga.

Hallgerður hefur kvatt okkur í blóma lífsins umlukin áformum um nýja landvinninga. Samt skilar hún ævistarfi sem sérhver metnaðarfullur fræðimaður gæti verið fullsæmdur af. Þar ber framlag hennar til þjóðfræði og þjóðhátta hæst og brauðryðjendastarf hennar í rannsóknum á matarmenningu Íslendinga. Enginn mun horfa framhjá hlut hennar á því sviði. Þegar við göngum um endurskapaða sýningarsali Þjóðminjasafnsins og rýnum í texta sem Hallgerður var aðalhöfundur að njótum við næmrar leiðsagnar hennar og innsæis í sameiginlega fortíð. Arfurinn frá Seldal og Hjalla reyndist henni notadrjúgur.

Við Kristín hugsum til Hallgerðar og hennar nánustu með hlýhug og þakklæti.

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim