Hjörleifur Guttormsson                                                                    9. febrúar 2008

Í minningu Hauks Hafstað (1920-2008)

Sennilega lágu leiðir okkar Hauks Hafstað saman á vettvangi Alþýðubandalagsins á sjöunda áratug síðustu aldar, en hann var alla tíð vinstrimaður í stjórnmálum og í forsvari fyrir Sósíalistaflokk og síðar Alþýðubandalag í heimasveit sinni Skagafirði. Það var þó fyrst í árdaga frjálsra náttúruverndarfélaga upp úr 1970 sem við kynntumst að ráði, en þá hafði Haukur flutt suður og gerst framkvæmdastjóri Landverndar. Oft leit ég við á kontórnum hjá honum á Skólavörðustíg 25, bæði til að fá fréttir og bera mig saman um náttúruverndarmál. Það var hlýlegt umhverfi á þessari skrifstofu og húsráðandinn fyllti hana af glaðværð sinni og eðlislægri reisn. Hákon Guðmundsson var þá formaður félagsins og þeir náðu vel saman, skagfirski bóndinn og ritari Hæstaréttar.
            Á þessum árum eins og löngum síðar einbeitti Landvernd sér að fræðslustarfi fyrir almenning með ráðstefnum og útgáfu rita. Þrjú þau fyrstu báru heitin Mengun, Gróðurvernd og Landnýting þar sem margir brautryðjendur miðluðu sinni sýn til mála. Verkefni Hauks í samráði við félagsstjórnina var að leiða þessa krafta saman og sjá um fundi og útgáfu. Þetta tókst honum vel þótt búskaparbasl hafi verið hlutskipti hans lengst af. Vegarnesti úr Flensborgarskóla kom sér eflaust vel og  sú þjálfun sem fæst af félagsmálastörfum.
            Þá var Eysteinn Jónsson formaður Náttúruverndarráðs og kunni vel til verka. Í árlegar sumarferðir ráðsins sem farnar voru til að kynnast verkefnum víða um land var oft boðið áhugamönnum. Ég minnist samfylgdar Hauks í nokkrum þessara ferða og þar var líka í liði systir hans Sigríður, húsfreyja á Tjörn, en eiginmaður hennar Hjörtur Eldjárn átti þá sæti í ráðinu. Ættfræði er ekki mín sterkasta hlið en smám saman varð mér ljós skyldleikinn með frændgarðinum frá Vík og Tjörn með óvenju sterku ívafi af réttlætiskennd og glettni sem auðveldar glímuna við hversdaginn. 
            Náttúruvernd kveikti elda í hugum margra á öldinni sem leið. Landgræðsla og skógrækt fór þar fyrir, studd af ungmennafélögum og heilbrigðum metnaði þjóðar í sókn. Síðar breikkaði sviðið með náttúru- og umhverfisvernd sem smám saman er að öðlast þann sess sem hæfir stærstu viðfangsefnum samtímans. Á þessu sviði stóð Haukur Hafstað í fjölradda kór og lagði sitt af mörkum á meðan kraftar entust. Fráfall hans minnir á góðan málstað og hugsjónir sem nú eiga erindi til okkar sem aldrei fyrr.

Hjörleifur Guttormsson



Til baka | | Heim