Heimir Þór Gíslason
1931–2010

Styrkur dreifbýlisins á Íslandi hefur lengi byggst á góðum skólum og kennurum sem lagt hafa sig fram í starfi og verið gildir þátttakendur í amstri daganna í sínu byggðarlagi. Heimir Þór Gíslason var góður fulltrúi í þessum hópi og stóð vaktina í hartnær hálfa öld. Tvö byggðarlög á Austurlandi nutu öðrum fremur krafta hans, fæðingarsveitin Breiðdalur og síðan Höfn í Hornafirði. Leiðir okkar lágu fyrst saman í félagsskap kennara eystra á miðjum sjöunda áratugnum en þá var Heimir skólastjóri á Staðarborg þar sem hann mótaði heimavistarskóla þeirra Breiðdælinga og stóð fyrir greiðasölu á sumrum með konu sinni, kvenskörungnum Sigríði Helgadóttur. Hann var á þessum árum oddviti hreppsins í heilt kjörtímabil 1966–1970. Ef leið mín lá um Breiðdal var sjálfgefið að koma við hjá þeim hjónum, fá fréttir úr byggðarlaginu og fræðast um fjöll og afkima þessarar fögru sveitar. Föðurforeldrar Heimis byggðu upp á Selnesi í Þverhamarslandi um aldamótin 1900 og sonurinn Gísli tók þar við búsforráðum 1922. Heimir ólst þar upp í fimm systkina hópi og fylgdist úr hlaðvarpanum með Þverhamarsþorpi, nú Breiðdalsvík, verða til. Hann var þannig nátengdur staðnum og hafði í æsku kynni jafnt af sjó og landi.

Heimir hafði næmt náttúruskyn og fylgdist vel með breytingum í nánasta umhverfi. Rannsóknir breskra jarðfræðinga í Breiðdal og nágrenni um 1960 undir forystu dr. Walkers vöktu áhuga hans og hann minntist kynna sinna af þessum óvenjulega leiðangri og fjölskyldu Walkers oft síðan. Að vonum gladdist hann yfir opnun Breiðdalsseturs sumarið 2008 þar sem jarðfræðin fær sinn sess við hliðina á huglægum verkum. Sjálfur var Heimir áhugasamur safnari og kom víða við, allt frá skrautsteinum til gamalla póstkorta. Þekktastur varð hann fyrir söfnun og nýtingu fjallagrasa, en það áhugamál leiddi fjölskylduna upp á heiðar Norð-Austurlands í nær tuttugu sumur. Þar var dvalið í tjöldum og með bíl sem hlýddi húsbónda sínum þótt aðrir hefðu ekki treyst farartækinu til stórræða. Sigríður húsfreyja fylgdi manni sínum ótrauð á fjall líkt og Halla Eyvindi forðum. Geta má nærri hvort börnin sem oft fengu að fljóta með hafi ekki mótast af þessu uppeldi við landsins titrandi hjarta.

Við Heimir höfðum um flest svipaða sýn til samfélagsmála og fáir fylgdu mér fastar eftir en hann í að hlúa að málstaðnum. Heimili þeirra Siggu stóð mér alltaf opið og var lagt undir hvenær sem tilefni gafst til og oft óbeðið rýmt til í kjallaranum fyrir kosningastarf þegar safna þurfti liði. Við eldhúsborðið á Grímsstöðum þraut aldrei umræðuefni þar sem fjölfræðingurinn Heimir fór með himinskautum og Sigga þurfti stundum að minna hann á hvað tímanum liði. Tveimur mánuðum fyrir andlátið hringdi hann til mín með kveðju frá sameiginlegum kunningja, nýkomin úr ferð til Hafnar. Hann sagðist vera að hripa inn á tölvuna úr dagbókum Siggu sinnar í bland við eigin minningar svo að þær væru aðgengilegar fyrir börnin. Þannig lifir hann með okkur inn í framtíðina broshýr og með glampa í augum.

Hjörleifur GuttormssonTil baka | | Heim