Hilmar Bjarnason
(1916–2013)

Ef Íslendingar hefðu komið sér upp akademíu viturra manna til ráðgjafar um mikilverðustu þjóðmál hefði Hilmar Bjarnason skipstjóri átt heima í þeim hópi. Ég átti því láni að fagna að  eiga hann að og njóta samfylgdar hans og Sigrúnar eftirlifandi eiginkonu hans í fjóra áratugi eystra. Þegar leiðir okkar lágu saman á miðjum sjöunda áratugnum var Hilmar að mestu kominn í land eftir langt og farsælt starf við skipstjórn og útgerð á Eskifirði. Þá gafst honum tími til að sinna öðrum áhugamálum jafnframt því sem hann miðlaði áfram af reynslu sinni á vettvangi Fiskifélags Íslands og deilda þess eystra. Áhugamál okkar Hilmars fóru saman á mörgum sviðum og má þar nefna vörslu menningarminja og náttúruvernd. Hann var brautryðjandi á þessu sviði í heimabyggð, m.a. sem formaður í Byggðasögunefnd Eskifjarðar og óþreytandi stuðningsmaður mágs síns, Einars Braga, við ritun hans á Eskju. Verndun gamalla húsa í heimabyggð og tilkoma Sjóminjasafnsins á Eskifirði er sprottin upp úr sama jarðvegi í farsælu samstarfi við Geir Hólm. Við undirbúning að Safnastofnun Austurlands nutum við leiðsagnar Hilmars, m.a. að því er varðaði verkaskiptingu safna í fjórðungnum. Í aðdraganda að myndun Náttúruverndarsamtaka Austurlands var hann í hópi þeirra sem komu á undirbúningsfund vorið 1970 og sendu út hvatningu til Austfirðinga um stofnun NAUST. Saman gengum við um Hólmanes, þar sem Hilmar vísaði til minja, og nokkru síðar var svæðið friðlýst. Ótaldar eru margar sumarferðir um fjórðunginn þar sem þau hjón voru með í för. Á opnum stjórnmálafundum sem Alþýðubandalagið boðaði reglulega til á Eskifirði eins og í öðrum byggðarlögum eystra var Hilmar oftast mættur og lagði gott til mála, með sjálfstæðar og yfirvegaðar skoðanir, m.a. á sjávarútvegsmálum og um nýtingu landhelginnar. Allir máttu vita hvar hjarta hans sló þegar kom að því að varðveita og treysta fullveldi Íslands og yfirráð yfir auðlindum þess til lands og sjávar. Á tvísýnum tímum er hollt að halda á lofti minningu þeirrar kynslóðar sem ruddi brautina. Í þeim hópi var Hilmar Bjarnason í fremstu röð.

Hjörleifur Guttormsson
1. ágúst 2013


Til baka | | Heim