Ingibjörg Magnúsdóttir
1918–2011

Þegar við Kristín fluttumst til Neskaupstaðar haustið 1963 voru Gunnar Ólafsson og Ingibjörg Magnúsdóttir með þeim fyrstu sem við heimsóttum. Steinsnar var þá milli heimila okkar  og hélst svo um áratugi þótt báðar fjölskyldurnar flyttu sig um set. Fyrir Kristínu sem hingað var komin í framandi umhverfi var mikils virði að geta þegið ráð hjá Ingibjörgu sem reyndri húsmóður. Ólaf son þeirra þekktum við frá námsárunum í Þýskalandi þar sem hann festi ráð sitt, og þannig varð margt sem tengdi fjölskyldurnar saman. Gestkvæmt var á heimili þeirra, meðal annars af Fáskrúðsfirðingum, en á Búðum áttu þau heima öll stríðsárin uns Gunnar varð skólastjóri á Norðfirði 1946.  Meðal þeirra sem áttu innkomu hjá þeim að vetrarlagi var Lúðvík Jósepsson sem leigði sína íbúð að jafnaði um þingtímann. Við minnumst skemmtilegra kvöldstunda yfir kaffibolla hjá þeim hjónum þar sem aldrei skorti umræðuefni. Ingibjörg gaf körlunum ekkert eftir með skarplegum athugasemdum og græskulausri glettni sem var var einn af hennar góðu eðliskostum.
            Ingibjörg vann verk sín heima fyrir áreynslulaust, að best varð séð, heimilið alltaf slétt og fágað og bar hannyrðakonunni fagurt vitni. Hún vann utan heimilis eftir að synir hennar þrír uxu úr grasi, kenndi handavinnu við Barnaskólann og varð síðan bókavörður eftir að Bókasafn Neskaupstaðar flutti í nýtt húsnæði í Egilsbúð. Einnig þar var reiða á öllu og þægilegt andrúmsloft. Eflaust lagði Gunnar þar einnig hönd að verki, sjálfur bókamaður og annt um varðveislu heimilda. Þau hjón voru hátt í fjóra áratugi ein af helstu stoðum byggðarlagsins og féllu vel að því metnaðarfulla og róttæka andrúmslofti sem þar ríkti á öldinni sem leið.
            Eftir að Gunnar hætti skólastjórn eystra lá leið þeirra hjóna til Reykjavíkur 1984, þar sem þau eignuðust á ný fallegt heimili. Ingibjörg var þar á heimavelli og skammt að leita til fjölskyldna sonanna sem þar voru búsettir. Samverustundirnar strjáluðust en þó leið aldrei ár svo að leiðir lægju ekki saman. Undravert fannst okkur hversu aldurinn fór vel með þau bæði. Það er þess virði að komast á tíræðisaldur þegar andlegt þrek helst til síðustu stundar. Við þökkum Ingibjörgu og öllu hennar fólki samfylgdina.

Kristín og Hjörleifur Guttormsson
2. febrúar 2011


Til baka | | Heim