Ingi R. Helgason
f. 29. júlí 1924 - d. 10. mars 2000

Þeir sem nú eru að kveðja og ná meðalaldri hafa lifað mesta breytingaskeið sem yfir mannkynið hefur gengið, í fyrstu ógnaröld en síðan velmegunarskeið í okkar hluta heimsins, að vísu í skugga kjarnorkusprengjunnar. Ingi fæddist sama ár og Þórbergur sendi frá sér Bréf til Láru. Þar sá meistarinn fyrir sér "…sameignarmannfélag, ímynd mannúðar, vitsmuna og réttlætis. Þá er ekki lengur um það barizt, hvort þessi eigi að svelta hrjáður og fyrirlitinn, en hinn verði dýrlegur af óhófi og stjórnleysi á dýrslegum girndum." - Í uppvextinum kynntist Ingi kröppum kjörum alþýðu manna. Hann var í menntaskóla þegar hildarleikur seinni heimsstyrjaldarinnar stóð yfir og á háskólaárum hans var tekist á um kröfur Bandaríkjamanna um herstöðvar hérlendis og inngöngu í NATÓ.

Um tvítugt skipaði Ingi sér í raðir ungra sósíalista, fyrst í Félag róttækra stúdenta og síðar Æskulýðsfylkinguna, en forseti þennar varð hann tvívegis á árunum 1950-1954. Sá félagsskapur mun ekki í annan tíma hafa látið meira að sér kveða, gaf meðal annars á þessum árum út tímaritið Landnemann sem náði talsverðri útbreiðslu.

Ingi var glæsimenni, harðgreindur og hæfileikaríkur og gæddur persónutöfrum sem hvorki fóru fram hjá samherjum né andstæðingum. Margir vina hans áttu von á því að hann yrði brátt í fremstu röð í stjórnmálum. Ingi var framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins 1956-1962 og hafði náin tengsl við formann þess flokks Einar Olgeirsson. Til Alþýðubandalagsins var stofnað sem kosningabandalags 1956 og var Ingi efstur á framboðslista þess í Vesturlandskjördæmi við haustkosningarnar 1959 og aftur 1963. Munaði í síðara skiptið aðeins hársbreidd að hann næði kjöri sem landskjörinn þingmaður en sem varamaður tók hann á þessum árum tvísvegis sæti á Alþingi. Þá átti hann í tvö kjörtímabil sæti í borgarstjórn Reykjavíkur, var kjörinn borgarfulltrúi 1950 þá aðeins 25 ára gamall.

Deilur innan Alþýðubandalagsins leiddu á sjöunda áratugnum til klofnings þessara lausbeisluðu samtaka og stofnunar tveggja stjórnmálaflokka, Alþýðubandalagsins og Samtaka frjálslyndra og vinstri manna. Átökin sem þessu fylgdu urðu ekki til að greiða götu Inga í pólitíkinni. Það dró hins vegar ekki úr liðveislu hans, hvort heldur var við einstaklinga sem áttu undir högg að sækja eða málgögn og stjórnmálafélög á vinstri kantinum. Honum hætti að vísu til að taka meira að sér en auðvelt var að uppfylla, auk þess sem tímaskynið var aldrei hans sterka hlið. Við félagsmálin bættist rekstur eigin lögfræðiskrifstofu sem átti auðvitað að tryggja viðurværið en mætti ósjaldan afgangi. Ingi skildi 1958 við fyrri konu sína, Ásu Guðmundsdóttur, og tók það á hann. Dóttir þeirra er Álfheiður líffræðingur, nú ritstjóri Náttúrufræðingsins.

Þótt Ingi hefði aldrei stjórnmál að aðalstarfi reyndi ekki síður á hann sem fjölhæfan og ósérhlífinn liðsmann. Þannig hlóðust á hann ótal verkefni ekki síst þegar Alþýðubandalagið átti hlut að ríkisstjórnum eins og á árunum 1971-74 og 1978-83. Hann átti sæti í stjórn Iðnlánasjóðs um áratugi, tvívegis sem formaður, og sat einnig í stjórn Iðnþróunarsjóðs. Öðlaðist hann mikla innsýn í iðnaðarmálefni og beitti sér fyrir bættum starfsskilyrðum þessa vaxandi atvinnuvegar. Árið 1979 fór Ingi fyrir sendinefnd ráðuneyta til annarra EFTA-ríkja og til Efnahagsbandalagsins og leiddi sú för, sem ekki var spáð vel fyrir af embættismönnum, til þess að svonefnt aðlögunargjald á innfluttar samkeppnisvörur fékkst samþykkt.

Sem iðnaðarráðherra leitaði ég ósjaldan ráða hjá Inga og naut ráðuneytið krafta hans við úrlausn ýmissa vandasamra verkefna. Frægur varð 1980 þáttur hans í að upplýsa "hækkun í hafi" sem snerist um skattamál Alusuisse vegna reksturs dótturfélagsins Ísals hf. Þeim málarekstri lyktaði með tvöföldun á raforkuverði álversins í Straumsvík. Í þessu sambandi tók Ingi í nóvember 1980 að sér ferð til Ástralíu, þar sem hann aflaði undirstöðugagna, auk þess sem hann heimsótti sérfræðinga í álheiminum vestanhafs. Á hæfari erindreka varð tæpast kosið og lagðist þar á eitt þekking, reynsla og viðmót.

Árið 1981 urðu þáttaskil í lífi Inga þegar hann var skipaður forstjóri Brunabótafélags Íslands. Upp frá því helgaði hann krafta sína tryggingamálum, átti m.a. frumkvæði að stofnun Vátryggingafélags Íslands og var starfandi stjórnarformaður þess til 1996. Á þessum vettvangi nýttust kraftar hans, margþætt reynsla og hæfni afar vel. Hann aflaði sér almenns trausts og virðingar á þessum vettvangi, meðal annars hjá sveitarsstjórnmönnum sem tengdust Brunabótafélaginu. Samhliða þessu sinnti Ingi margbrotnum áhugamálum og stækkandi fjölskyldu. Árið 1966 kvæntist hann Rögnu M. Þorsteins flugfreyju sem lifir mann sinn. Var sambúð þeirra með ágætum og eignuðust þau saman tvö börn, Eyrúnu 1968 og Inga Ragnar 1971. Hjá þeim ólst líka upp Steinunn, dóttir Rögnu, auk Álfheiðar sem var elst í hópnum. Fimmta barn Inga, Ragnheiður, fæddist 1960 og um tíma bjó einnig hún á námsárum sínum á heimilinu á Hagamel 10.

Ingi R. Helgason var alla tíð sósíalisti og varði miklu af kröftum sínum í þágu þess málstaðar. Eins og fleiri batt hann vonir við þjóðfélagstilraunina í austurvegi fram eftir öldinni en svo fór að hún snerist í andhverfu sína og hrundi fyrir áratug. Eftir stendur kapítalisminn að heita má óheftur með vaxandi misskiptingu og harðnandi vistkreppu sem ekki sér fyrir endann á. Margt af því sem lesa má í Bréfi til Láru vekur enn til umhugsunar þótt heil mannsævi skilji á milli - og ekki sakar húmor meistarans, undir það hefði Ingi áreiðanlega tekið. "Grunntónn tilverunnar er meinlaust grín" - sagði Þórbergur.

Ég sá Inga R. síðast með Rögnu sinni í 1. maí-kaffi hjá Vinstri-grænum í vor sem leið. Brosið var enn kankvíst og blik í augum. Hann gladdist með okkur yfir þeim fjölda sem þarna var á ferð. Blikið er nú slokknað en minningin um góðan félaga og samferðamann fylgir okkur sem höldum göngunni áfram.

Við Kristín sendum Rögnu, systkinunum og öllu venslafólki samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim