Jóhann Jóhannsson - minningarorð
f. 8. ágúst 1919 - d. 24. apríl 2001

 

Jóhann Jóhannsson kennari á Seyðisfirði verður eftirminnilegur maður þeim sem honum kynntust. Hann var hár og spengilegur og bar sig vel, fölleitur og skarpleitur með tindrandi og vökul augu. Handtak hans var fast, orðfærið ákveðið og oft kappsfullt þegar hann sótti í sig veðrið í samræðum, lá sjaldan á skoðunum sínum og fór ekki með hálfkveðnar vísur. Ytri framganga og hans innri maður eins og ég kynntist honum rímuðu óvenju vel saman, hvoru tveggja fágað og heilsteypt.

Jóhann var einlægur sósíalisti að lífsskoðun, mótaður af vestfirskum uppruna sínum, missti móður sína innan við ársgamall og ólst upp við kröpp kjör þeirrar tíðar hjá fósturforeldrum við Djúp. Sjórinn var honum ekki síður kær en landið og samskipti við hafið bláa mótuðu hann framan af ævi. Til hafsins leitaði hann á seinni árum endurnæringar á trillu sinni ekki síður en til landsins í göngutúrum og á rjúpnaveiðum.

Kynni okkar Jóhanns hófust á 7. áratugnum í félagsmálastarfi Alþýðubandalagsins á Austurlandi þar sem hann var ætíð með traustustu liðsmönnum ásamt eftirlifandi eiginkonu sinni Ingu Hrefnu og stórum frændgarði. Hann lagði mikið á sig fyrir málstaðinn heima og heiman, sótti fundi oft langt til og var fyrstur manna á vettvang þegar þingmenn flokksins létu sjá sig í heimabyggðinni. Um tíma sat hann í bæjarstjórn Seyðisfjarðar fyrir Alþýðubandalagið og var oft í forystu fyrir félagið heima fyrir. Mér er minnisstætt eitt sinn er einhver doði hafði verið yfir félagsskapnum að Jóhann dreif upp kosningaskrifstofu í húsnæði við aðalgötuna og setti allt á fullt í aðdraganda alþingiskosninga. Það munaði um slíkan liðsmann.

Jóhann var prýðilega ritfær, hafði gott vald á íslensku máli og var ólatur að festa hugsanir sínar á blað. Hann lét Vikublaðið Austurland njóta þessa um áratugi, sendi því fjölda fréttapistla úr heimabæ og stundum greinar. Í fórum mínum á ég mörg bréf frá Jóhanni sem hann sendi mér sem þingmanni og félaga. Þar reifaði hann áhugamál sín og stundum áhyggjur af flokknum og fulltrúum hans. Hann hikaði ekki við að gagnrýna stefnu og störf forystumanna ef svo bar undir og færði þá jafnan fram rök fyrir máli sínu. Orðtækið gamla, sá er vinur er til vamms segir, átti vel við um Jóhann.

Að leiðarlokum minnist ég hans með hlýju og virðingu. Við Kristín sendum Ingu Hrefnu, börnum þeirra og tengdafólki innilegar samúðarkveðjur.

 

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim