Jóhann Karl Sigurðsson
f. 14. mai 1925 - d. 15. júní 1999


Með Jóhanni Karli Sigurðssyni í Neskaupstað er falli frá ein styrkasta stoð samfélagsins á Norðfirði um marga áratugi. Frá 1960 að telja hafði Jóhann á hendi framkvæmdastjórn fyrir aðalútgerð í kaupstaðnum, fyrst Nesútgerðinni 1960-64 og síðan útgerð Síldarvinnslunnar um 30 ára skeið. Jóhann átti ásamt framkvæmdastjórum Síldvarvinnslunnar hf drýgstan þátt í að byggja upp þetta öfluga fyrirtæki sem frá upphafi hefur verið burðarásinn í atvinnulífi staðarins. Þegar á ungum aldri hafði Jóhann stundað sjómennsku og aflaði sér réttinda sem stýrimaður og skipstjóri. Með honum byggðist upp hin öfluga útgerð Síldarvinnslunnar, fyrst með síðutogurum og frá 1970 með kaupum á fyrsta skuttogaranum Barða og mörgum happafleytum sem á eftir fylgdu.

Óhætt er að fullyrða að Jóhann lagði sig allan fram sem útgerðarstjóri og afraksturinn talar sínu máli. Hann bar hag allra sem í hlut áttu fyrir brjósti, áhafna skipanna og ekki síður landverkafólks og byggðarlagsins í heild. Þar fór saman stefna stjórnar Síldarvinnslunnar og útgerðarstjórans sem var jafnframt bæjarfulltrúi samfellt frá 1958 til ársins 1982. Jóhann hafði einnig gegnt trúnaðarstörfum fyrir Verkalýðsfélag Norðfjarðar á sjötta áratugnum og sem slíkur kynnst baráttunni fyrir að tryggja fulla atvinnu í bænum. Samþætting veiða og vinnslu var honum mikið hjartans mál en til að það tækist þurfti oft flóknar málamiðlanir sem gengið gátu gegn skammtíma rekstrarhagsmunum útgerðarinnar.

Jóhann hafði ótrúlega góða yfirsýn yfir allt er laut að hag fyrirtækisins og útgerðar þess sérstaklega. Hann lá ekki á upplýsingum og heimsókn til hans á skrifstofuna skildi mann eftir með kynstur af fróðleik og hugmyndum um það sem betur mætti fara. Þar var ekki aðeins horft til byggðarlagsins heldur stöðu sjávarútvegsins í heild. Um sjávarútvegsmál hafði Jóhann fastmótaðar skoðanir og hagur Norðfjarðar og nágrannabyggða var þar mælikvarðinn sem gilti. Á fjölmörgum Fiskiþingum sem hann sat og á vettvangi LÍÚ lét hann til sín taka og naut virðingar fyrir þekkingu og árangur í starfi. Hann setti mál sitt fram skorinort og kryddaði það með frumlegum orðum og orðatiltækjum sem orðið höfðu til í smiðju hans eða í samtölum við sjómenn.

Ég kynntist Jóhanni vel í félagsstarfi í Alþýðubandalaginu í Neskaupstað í ein 15 ár áður en ég var kosinn á Alþingi. Hann hafði setið 5 ár í bæjarstjórn þegar við Kristín fluttumst til Neskaupstaðar 1963, kjörinn af lista Alþýðubandalagsins 1958 eftir að samstarf tókst með sósíalistum og hluta félagsmanna úr Alþýðuflokknum. Hafði Jóhann verið starfandi í Alþýðuflokknum og varabæjarfulltrúi af hans lista frá 1954. Samstarf hans við forystumenn sósíalista varð strax heilsteypt. Jóhann gerðist stofnfélagi í ABN 1965 og átti um tíma sæti í stjórn þess. Í bæjarmálum lét hann atvinnumál og hafnarmál sérstaklega til sín taka og var formaður hafnarnefndar Neskaupstaðar um langt skeið. Sem þingmaður átti ég margháttuð samskipti við Jóhann og á góðar minningar af öllum okkar samskiptum..

Þrátt fyrir erilssamt starf gleymdi Jóhann ekki fjölskyldu sinni og niðjum. Ég hygg að leitun hafi verið að jafn nærfærnum fjölskylduföður. Eftir að hann lét af starfi útgerðarstjóra fyrir nokkrum árum fjölgaði þeim stundum sem hann átti með Stínu sinni og mannvænlegum og stækkandi hópi afkomenda. Öll eiga þau um sárt að binda nú er hann er fallinn frá. Neskaupstaður kveður mikinn atorkumann sem lengi mun minnst fyrir verk sín og framlag í almannaþágu. Við Kristín sendum eiginkonu, börnum þeirra og öðrum í fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim