|
Minningabrot um höfund Áfanga
þegar 100 ár voru frá fæðingu hans 30. júní 1899
Ógleymanleg persóna
Jón Helgason prófessor gleymist þeim seint sem hann sáu. Það var
á árunum 1956-57 er ég eitt sinn var staddur í Kaupmannahöfn að efnt var
til kvöldvöku á Kannibalen. Þar voru gestir Þórbergur Þórðarson rithöfundur
og Margrét kona hans og sátu við háborð. Fjöldi Íslendinga sótti vökuna
og var húsfyllir. Meðal nafntogaðra voru Jón Helgason og Sigurður Nordal,
þá sendiherra í Kaupmannahöfn. Allir bekkir voru setnir; tylltu sumir
sér í gluggakistur, þeirra á meðal Jón Helgason og sást þar vel til hans.
Mig minnir Þórbergur hafa lesið upp kafla úr endurminningum sínum úr Suðursveit,
sem þá voru að koma út, og fékk mjög góða áheyrn. Eftir lesturinn var
ýtt á hann að koma með meira og segja frá einhverju eftirminnilegu. Í
fyrstu færðist hann undan en síðan komu sögurnar ein af annarri, meðal
annars nokkrar mergjaðar af Árna Þórarinssyni, sem ekki ekki höfðu fengið
inni í ævisögunni.
Á meðan Þórbergur lét dæluna ganga gekk hann um gólf, staldraði við öðru
hvoru með sínu látbragði, skaut orðum að Margrétu sinni inn á milli og
bar undir hana hvort hæfði að segja þetta eða hitt. Salurinn iðaði undir
frásögn Þórbergs og kættust menn því meir sem á leið. Ég hafði ekki litið
Jón Helgason augum fyrr en fylgdist þeim mun betur með honum þetta kvöld.
Svipbrigði hans undir sögum Þórbergs voru ógleymanleg og fór ekki milli
mála að hann naut stundarinnar. Þegar ég heyrði um áratug síðar af því
látið að Jón hefði vakið mikla athygli hjá norrænum sjónvarpsáhorfendum
fyrir framgöngu sína sem dómari í samnorrænni spurningakeppni, kom það
ekki á óvart. Stefán Karlsson lærisveinn Jóns sagði mér nýlega að það
hafi ekki síst verið kunnátta hans í norrænum málum sem hreif hlustendur.
Hann notaði ekki "skandinavísku" eins og flestir Íslendingar tíðka heldur
svaraði til á tungumáli þess sem í hlut átti hverju sinni.
Jón Helgason og nóbelsskáldið
Kunningsskapur þeirra Halldórs Kiljans Laxness og Jóns Helgasonar
var náinn og gefandi, vafalaust fyrir báða, og áhrifin frá Jóni skiluðu
sér með ýmsum hætti inn í verk nóbelsskálsins. Þetta er nú alkunna og
meðal annars staðfest af bréfaskiptum þeirra sem Peter Hallberg rekur
í sínu mikla verki um Halldór. Það var Jón sem miðlaði vini sínum þegar
árið 1924 og síðar upplýsingum um Jón Hreggviðsson og vafalítið ýmsu fleira
af sögusviði Íslandsklukkunnar [Hús skáldsins 2, Mál og menning 1971,
s. 87]. Svipuðu máli gegnir um Gerplu, sögusvið og ekki síst orðfæri.
Þótt Hallddór væri fundvís og fjölmenntaður í miðaldasögu eins og sést
af fjölmörgum ritgerðum hans var Jón þar á heimavelli þegar kom að texta.
Kynni þessara tveggja um margt ólíku manna glæddu þannig af sér loga
í bókmenntum aldarinnar þar sem erfitt getur verið að greina hvurs er
hvað. Frásögn Halldórs af fyrsta fundi þeirra Jóns á Café Himnaríki 1919
og síðari samskiptum er gullsígildi [Úngur ég var, Helgafell 1976, s.
72-86]. Dómur hans um skáldskap Jóns fellur svo að minni tilfinningu að
best er að vitna til orða Halldórs: "Einhver sagði að Jón hefði fórnað
andagiftinni fyrir að ráða teikn, leysa bönd og geta í eyður í forntextunum.
En þekkíng á túngunni, meiri og traustari en menn hafa sagnir af, hefur
gætt þenan mann, sem þó var skáld að upplagi, hæfileika til að yrkja lífigædd
ljóð samkvæmt stíltegundum allra tímabila íslenkrar málsögu, að dróttkvæðastíl
10ndu aldar og sálmakveðskap hinnar 17du ekki undanskildum."
Ummæli Halldórs um Gunnarshólma Jónasar Hallgrímssonar og Áfanga Jóns
Helgasonar sem "kvæði sem má skifta á milligjafarlaust" eru orð að sönnu.
Með áðurnefndan upplestur Þórbergs í huga er fróðlegt að sjá Halldór greina
frá fyrstu samræðum þeirra Jóns nær fjórum áratugum fyrr, þar sem hann
spyr um Þórberg einan skálda á Íslandi, mann "sem enn hafði ekki gefið
út bók né eignast innhlaup í málgagni."
Gengið í helgidóminn
Ég var svo heppinn að upplifa þá stemmningu sem því fylgdi að sigla utan
með þeim fleytum sem tengdu Íslendinga við gamla höfuðborg sína fram eftir
öldinni. Þetta voru Ms. Dronningen með viðkomu í Færeyjum og Ms. Gullfoss
sem stansaði oft dagpart í Leith. Baráttan um íslensku handritin var í
algleymingi á sjötta tug aldarinnar og marga langaði að bera þær gersemar
augum. Þegar ég 1956 gaf mér tíma frá öldurhúsum og annarri skyldugri
skemmtan með löndum að líta í háskólabókasafnið í Fjólustræti var Árnasafn
lokað, handrit komin í kassa og biðu flutnings í Próvíanthúsið við rósagarðinn
þar sem áður var Orlogshöfn Kristjáns fjórða. Í annarri tilraun ég held
á leið minni til Leipzig haustið 1957 fann ég safnið fyrir á þessum nýja
stað og fékk að líta inn úr undir leiðsögn Jóns, sem þá hafði starfað
við safnið sem forstöðumaður þess í full 30 ár. Þetta var eins og að ganga
í helgidóm.
Aðdáendur á fjöllum
Áður hér var komið sögu hafði ég heyrt margar sögur af Jóni frá námsmönnum
í Kaupmannahöfn, þeirra á meðal Steingrími Pálssyni landmælingamanni og
Stefán Karlssyni sem brátt varð starfsmaður Det arnamagnæanske Institut
í Kaupmannahöfn (1957-1970) og síðar sérfræðingur og forstöðumaður Stofnunar
Árna Magnússonar á Íslandi. Með þeim og fleiri skemmtilegum félögum vann
ég við mælingar á miðhálendinu 1956. Það sumar voru ljóð Jóns Helgasonar
oft lesin hátt og í hljóði norðan Tungnár og á Sprengisandi með Löðmund
í sjónmáli í fjarska. Steingrímur hafði dvalið nokkur ár eftir stríð í
Kaupmannahöfn við nám og tók drjúgan þátt í félagslífi stúdenta, þar sem
Jón var þá hrókur fagnaðar. Auk Stefáns var ég málkunnugur öðrum lærisveini
Jóns, Jónasi Kristjánssyni, sem varð starfsmaður og síðar forstöðumaður
handritastofnunarinnar hér heima frá 1971. Frásagnir þessara manna nægðu
til að gera Jón Helgason að þjóðsagnapersónu í mínum huga, en kynni mín
voru fyrst og fremst af ljóðskáldinu sem ég dáði strax í menntaskóla og
hefur fylgt mér síðan heima og erlendis. Ljóðabókina Úr landsuðri fékk
ég í jólagjöf 1955 og sú bók er nú álíka lúin orðin og Kvæðakver HKL.
Handritaspjall
Bókin Handritaspjall eftir Jón Helgason var gefin út á vegum Máls og menningar
1958, mikill hvalreki fyrir leikmenn til að fá nasasjón af íslenskum handritum.
Fyrir mig var bók þessi opinberun og glæddi skilning minn á sögu íslenskra
handrita og því starfi sem tengist vörslu þeirra og útgáfu. Í Handritaspjalli
koma vel fram hæfileikar Jóns til að miðla til okkar ólæsra fróðleik um
handritin og samhengi íslenskra bókmennta. Bók þessi mætti vera skyldulesning
í framhaldsskólum. Sem kennari var Jón rómaður og sem vísindamaður ól
hann upp þá ágætu fræðimenn sem tóku við vörslu handritanna sem heim bárust
eftir að samningar tókust við dönsk stjórnvöld um afhendingu þeirra. Ekki
hef ég fengið skýringu á hvers vegna Jóni var ekki meiri sómi sýndur en
raun bar vitni eftir lausn þeirrar viðkvæmu deilu, en þeir sem næstir
honum stóðu fullyrða að hann hefði kosið að fylgja handritunum heim til
Íslands. "Það gleymdist að biðja pabba að koma með" sagði Solveig dóttir
hans í útvarpsþætti fyrir fáum dögum og fleiri hafa gefið hið sama til
kynna.
Heiðurslaun listamanna
Árlega úthlutar Alþingi dálítilli fjárhæð til valsins hóps undir heitinu
heiðurslaun listamanna. Á þessu ári koma þau í hlut 13 manna, ellefuhundruð
þúsund til hvers, en flestir munu heiðurslaunamenn orðið 17. Menntamálanefnd
þingsins, áður menntamálanefndir beggja þingdeilda, gerir tillögur um
hlutaðeigandi og hefur undantekningalítið verið á þær fallist í þinginu.
Haustið 1983 var ég kjörinn í menntamálanefnd Neðri deildar og átti þá
og næstu ár hlut að tillögu nefndanna. Við að líta yfir heiðurslaunalistann
undraðist ég að þar var ekki að finna nafn Jóns Helgasonar og gerði ég
því um hann tillögu. Menntamálanefndirnar funduðu samkvæmt hefð sameiginlega
um málið. Margar hugmyndir voru um verðuga og átti tillagan um Jón á brattan
að sækja. Var mörgu borið við svo sem því að langt væri síðan hann hefði
sent frá sér ljóðabók, óvíst væri að hann myndi þiggja slíka viðurkenningu,
gæti jafnvel brugðist við henni öndverður, og varpað var fram spurningu
um hvort hann væri íslenskur þegn. Við skoðanakönnun stóðu aðeins þrír
nefndarmenn og einn áheyrnarfulltrúi með Jóni. Þó varð að lokum að samkomulagi
að fjölga í heiðurlaunaflokki og hafa Jón með í hópnum og var hann þar
til dauðadags. Mér þótti vænt um þessa niðurstöðu og fannst sem þjóðþingið
væri með þessu seint og um síðir að senda örlítinn þakklætisvott í landsuður.
Nú þegar hundrað ár eru liðin frá fæðingu Jóns Helgasonar finnst væntanlega
flestum sem höfundur Áfanga hafi átt þarna heima sem eitt af öndvegisskáldum
þjóðarinnar.
Hjörleifur Guttormsson
|