Karl Andrés Sigurgeirsson
f. 14.desember 1934 - d. 20. desember 1999

Hann Kalli á Melrakkanesi kvaddi okkur skyndilega á jólaföstunni langt fyrir aldur fram. Hann verður mörgum harmdauði, því að leitun var að öðrum eins ljúfling. Ég kynntist honum innan við fermingu á sundnámskeiði á Eiðum, líklega vorið 1948. Þar var saman komið margt ungmenna úr sveitum og sjávarplássum, meðal annars frá Djúpavogi og grennd. Þótt dvölin væri stutt tókust þarna með unglingunum góð kynni. Síðan liðu tveir áratugir uns leiðir okkar lágu saman á ný. Ég var þá tekinn að flakka um byggðir og fjöll austanlands og barði einn góðan veðurdag að dyrum á Melrakkanesi, heimili þeirra Karls og Þórunnar Ragnarsdóttur. Þau höfðu byrjað búskap á jörðinni um 1960, þá aðeins hálfþrítug, bjuggu fyrsta áratuginn í gamla bænum sunnan á nesinu, en komu sér eftir 1970 upp íbúðarhúsi í Skjólum milli kletta við fjallsendann þaðan sem útsýni er mikið til norðurs og suðurs með ströndinni. Umhverfis húsið var brátt kominn skrúðgarður eins og best gerist í þéttbýli. Þetta er steinsnar frá þjóðvegi og oft freistaðist ég til að knýja þar dyra þótt tími leyfði oftast aðeins stuttan stans. Fyrr en varði voru komnar kræsingar á borð og þeirra neytt á meðan rædd voru þjóðmál og helstu tíðindi innansveitar.

Karl og Þórunn voru samhent í blíðu og stríðu, nokkuð ólík í fasi og bættu hvort annað upp. Þau eignuðust þrjú mannvænleg börn. Það varð heimilinu áfall þegar elsti sonurinn, Guðjón Björgvin, lenti í alvarlegu slysi og hefur síðan verið öryrki. Karl var maður hæglátur en íhugull og fylgdist vel með öllu nær og fjær. Hann var ættaður frá Djúpavogi en Þórunn er frá Höfn í Hornafirði. Þótt landbúnaður yrði þeirra aðalstarf fylgdust þau náið með hag þéttbýlisins beggja vegna. Melrakkanes hefur verið talin góð fjárjörð enda bjuggu þau við sauðfé en höfðu um tíma dálítið af alifuglum til drýginda. Fyrir fáum árum þegar þrengdi að í sauðfjárræktinni hóf Karl fiskverkun á Djúpavogi með öðrum en áður hafði hann eignast trillu sem hann reri á er tími gafst til. Á síðasta ári var hann byrjaður að vinna úr reka. Sýnir þetta með öðru kjark hans og drift að byrja á nýjum viðfangsefnum sér og sínum til hagsbóta kominn á sjötugsaldur.

Við Karl áttum góða samleið í stjórnmálum. Hann var alla tíð vinstri sinnaður og gerðist ásamt sínu fólki stuðningsmaður Alþýðubandalagsins. Hann fylgdist vel með landsmálapólitík og í þeim sviptingum sem nýlega urðu var hann fljótur að finna sér stað á grænum grundum sem stuðningsmaður nýrra viðhorfa.

Að leiðarlokum vil ég þakka Kalla fyrir trausta samfylgd og vináttu um leið og við Kristín sendum Þórunni, börnum þeirra og öðrum nákomnum samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim