Kristín Halldórsdóttir
1939–2016

Kristínu Halldórsdóttur kynntist ég fyrst vorið 1983 þegar hún var nýkomin inn á Alþing í árdaga Kvennalistans. Reyndar þótti mér sem ég þekkti hana af bróður hennar Halldóri bekkjarfélaga mínum í MA og við systur hennar Svanhildi kannaðist ég frá því hún stóð fyrir kosningabaráttu Vigdísar Finnbogadóttur í forsetakosningum þremur árum áður.

Samstarfið við þingkonur Kvennalistans árin á eftir var um margt eftirminnilegt, en Alþýðubandalagið sem ég tilheyrði var þá komið í stjórnarandstöðu. Við Kristín fluttum saman þingmál tengt verðlagningu á raforku til stóriðju fyrsta haust hennar á þinginu og ljóst var að málefni féllu víða saman. Hún var formaður Ferðamálaráðs 1989–1993, en á þeim árum var unnið að mótun ferðamálastefnu og átti ég sem formaður stjórnskipaðrar nefndar góð samskipti við ráðið undir hennar stjórn. Síðasta kjörtímabil okkar beggja á Alþingi 1995–1999 áttum við bæði sæti í umhverfisnefnd og þar reyndist hún öflugur talsmaður, setti sig vel inn í mál og fylgdi þeim eftir innan og utan þings. Þetta var síðasta kjörtímabilið sem Kvennalistinn átti fulltrúa á löggjafarsamkomunni og það leyndi sér ekki að samstaða innan hópsins var ekki lengur sú sama og fyrr. Í ársbyrjun 1999 gekk Kristín til liðs við þingflokk óháðra og Vinstrihreyfinguna grænt framboð sem þá var að búa sig í eldraun fyrstu þingkosninga um vorið. Það var sjálfgefið að Kristín færi fram í sínu gamla kjördæmi, Reykjanesi, og þegar til kastanna kom munaði aðeins hársbreidd að sjötta þingsæti listans kæmi í hennar hlut.

Kraftar Kristínar nýttust eftir sem áður nýjum þingflokki VG þar sem hún gerðist starfsmaður jafnframt því að annast framkvæmdastjórn fyrir þennan nýja stjórnmálaflokk fyrstu árin. Skipti þar máli að hún gjörþekkti starfshætti og skipulag Alþingis eftir 10 ára þingsetu auk þess að hafa starfað þess á milli í 6 ár fyrir þingflokk Kvennalistans.

Eftir langt og farsælt starf að þjóðmálum átti Kristín skilið að geta notið efri áranna við hlið manns síns og niðja. Örlögin höguðu því þó þannig að andlegir kraftar hennar þrutu langt fyrir aldur fram. Eftir lifir minning um farsælt og gott samstarf í tvo áratugi og liðsemd við málstað sem gjörbreytt hefur stöðu kvenna og um leið beggja kynja til betri vegar í íslensku samfélagi.

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim