Ólafur H. Bjarnason
fæddur 21. febrúar 1915 - dáinn 20. október 1999

Mágur minn Ólafur H. Bjarnason var fæddur í Reykjavík en ólst frá 6 ára aldri upp á Reyðarfirði þar sem hann var tekinn í fóstur af hjónunum Þorsteini Jónssyni kaupfélagsstjóra og Sigríði Þorvarðardóttur Kjerúlf sem var stjúpsystir Ragnheiðar móður hans. Ólafur átti stóran frændgarð, fimm systkini og fjögur fóstursystkini. Á heimilinu í Hermes naut hann góðs atlætis, kynntist atvinnulífi staðarins og hlaut allgóða menntun á þeirrar tíðar mælikvarða. Í kaupfélaginu á Reyðarfirði kynntist hann Bergljótu Guttormsdóttur frá Hallormsstað, sem þar var þá við verslunarstörf. Gengu þau í hjónaband árið 1938 er Ólafur hafði lokið námi í Samvinnuskólanum. Til Reykjavíkur fluttu ungu hjónin árið eftir og þar áttu þau síðan heimili í full 60 ár, fyrst á Vífilsgötu, síðan á Þórsgötu 5 og frá árinu 1955 á Lynghaga 8.

Ólafur vann í 43 ár hjá Tollstjóraembættinu, lengst af sem fulltrúi en síðasta skeiðið sem yfirmaður endurskoðunardeildar. Hann þótti traustur embættismaður, reglusamur og stundvís og kom sér vel meðal starfsfélaga. Launakjör opinberra starfsmanna voru um miðja öldina langtum rýrari en síðar varð. Til af bæta fjárhaginn hafði Ólafur um tíma rekstur með höndum, stóð meðal annars að prjónastofu. Var vinnudagur hans lengst af mjög langur og frístundir takmarkaðar.

Heimili þeirra hjóna var íburðarlaust en vel búið og notalegt. Ólafur og Bergljót voru samhent í flestu þótt skapgerð þeirra væri ólík, húsfreyja létt í lund, nokkuð ör og gat látið gamminn geisa er svo bar undir, húsbóndinn rólyndur og hlédrægur en þó glettinn og kíminn við kunnuga. Úr lyndiseinkunnum þeirra varð góð og þægileg blanda sem setti svip á heimilislífið og ætíð var eftirminnilegt þau heim að sækja. Nú eftir á að hyggja urðu þær samverustundir alltof fáar. Gestkvæmt var á heimili þeirra, ekki síst seinni árin eftir því sem afkomendunum fjölgaði.

Leið fjölskyldunnar lá að vonum oft til Austurlands og þar dvöldu börn þeirra iðulega á unglingsárum. Ég minnist úr æsku ljúfra stunda er fjölskyldan af Þórsgötunni kom í Hallormsstað, oftast um hásumar, og bar með sér andblæ af framandi borg. Það ríkti eftirvænting með tilheyrandi spennu áður en þau renndu í hlað og þeim fylgdi ungviði sem að lokum varð fjögurra barna hópur, fyrst Sigríður Helga, alltaf kölluð Sirrý, og síðar bræðurnir Guttormur, Þorsteinn og Eggert. Börnin fæddust á tímabilinu 1939-1952. Enginn er á berangri sem á slíkan hóp og smám saman fjölgaði niðjunum sem ég veit enga tölu á.

Ólafur átti sér mörg hugðarefni sem hann ræktaði flest í kyrrþey í naumum frístundum. Hann var listhneigður eins og fleiri í hans ætt, málaði sér til ánægju, tók ljósmyndir og hafði yndi af söng og bóklestri. Um tíma var hann í Karlakór Reykjavíkur. Ólafur fylgdist vel með þjóðmálum en var ekki virkur þátttakandi á þeim vettvangi. Hann hafði ríka réttlætiskennd og sjálfstæði landsins var honum hjartans mál eins og fyrir flesta af hans kynslóð.

Það er ljúft að minnast Ólafs H. Bjarnasonar nú að leiðarlokum. Með honum er genginn traustur og heilsteyptur eljumaður og ljúfur fjölskyldufaðir og afi. Við Kristín sendum Bergljótu, börnum þeirra og frændgarðinum öllum samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson

 


Til baka | | Heim