Pétur Sigurðsson
1917–2010

Fólkið sem kom fótum undir Ísland eftirstríðsáranna er óðum að hverfa af sjónarsviðinu. Pétur Sigurðsson frá Ósi í Breiðdal var dæmigerður fulltrúi kynslóðar sem lagði sig alla fram við það sem henni var trúað fyrir, forsvarsmaður í atvinnulífi í sínu byggðarlagi og jafnframt bóndi á föðurleifð. Breiðdalur fóstraði hann og átti hug hans, velgengni byggðarlagsins réði gjörðum hans en um leið sýn til Íslands alls, lýðveldisins að stíga sín skref inn í nútíðina og samfélag þjóðanna.

Pétur var innan við þrítugt þegar hann tók að sér forystu í verslun og sjávarútvegi á Breiðdalsvík, samvinnumaður en um leið frumkvöðull sem vissi að ekkert gerist af sjálfu sér. Kaupfélag byggðarinnar naut krafta hans í aldarfjórðung og hann var í forsvari fyrir Hraðfrystihús Breiðdælinga sem framkvæmdastjóri í fjóra áratugi. Allan tímann var á brattann að sækja, aðeins misjafnlega þungt fyrir fæti. Eftir að komið var í áfanga gafst stutt andrými áður en næsti hjalli tók við. Baráttan fyrir að tryggja sjávarfang til úrvinnslu og um leið atvinnu heima fyrir var viðvarandi.

Ég kynntist Pétri í þessu hlutverki þegar hann um 1980 sá drauminn rætast um að byggðarlagið eignaðist nýtískulegt togskip. Í þeim efnum var ekki rasað að neinu heldur hvert skref ígrundað, þar á meðal stærð og búnaður skipsins sem fékk nafnið Hafnarey. Íslenskur skipaiðnaður átti í harðri og óvæginni samkeppni um smíði fiskiskipa erlendis. Í iðnaðarráðuneytinu þar sem ég staldraði við þau árin var reynt að jafna metin. Á þeirri  viðleitni hafði Pétur fullan skilning og niðurstaða hans varð sú að taka tilboði Þorgeirs og Ellerts á Akranesi um smíði skipsins. Þetta reyndist happafleyta á meðan Péturs naut við, mönnuð vöskum sjómönnum, flestum úr heimabyggð.

Það er ekki alltaf til vinsælda fallið að standa í stafni, reynir jafnvel meira á í fámennum byggðarlögum þar sem fjöldinn veitir ekki skjól. Pétur fór eðlilega ekki varhluta af gagnrýni en þó aldrei svo að kæmi til teljandi árekstra. Þar hjálpaði til greind hans og hógværð að viðbættri þekkingu á umhverfinu heima fyrir í smáu og stóru. Ég átti fundi með heimafólki í Breiðdal um áratugi og þar lét Pétur sig sjaldan vanta á meðan hann gegndi trúnaðarstörfum.
Í sunnanverðum Breiðdal setur grámosinn svip sinn á fjallshlíðar en birkikjarr vex víða að norðanverðu dalsins. Eflaust hefur Pétri þótt þetta öfugsnúið, fjárbóndanum sem skynjaði gildi þess að hlúa að jarðargróða. Hann leitaði að stað í Óslandi sem líklegastur væri til að vinna með uppgræðslu og fann hann í Leyningum innanvert í mynni Djúpadals. Þar eyddi hann mörgum stundum sem fjölgaði þegar um hægðist seinni árin í skjóli Smátindafjalls. Árangurinn af því ræktunarstarfi kallast á við viðleitni hans að hlúa að byggðarlaginu á meðan kraftar entust.

Á tímum sem þeim er við nú lifum þegar flestum Íslendingum ætti að vera ljóst að peningar vaxa ekki á gervitrjám er hollt að minnast manna eins og Péturs frá Ósi.

 

Hjörleifur GuttormssonTil baka | | Heim