Sigfinnur
Karlsson Mikil kempa er horfin af sjónarsviðinu. Sigfinnur Karlsson var stoð og stytta í austfirskri verkalýðshreyfingu í hartnær hálfa öld. Enginn einn einstaklingur setti mark sitt á störf hennar eins og hann, fyrst sem forystumaður í Verkalýðsfélagi Norðfirðinga og síðar jafnframt sem forseti Alþýðusambands Austurlands. Dugnaður hans og starfsþrek var með ólíkindum og stundum gekk hann nær sér en skyldi. Hann var ötull liðsmaður í hreyfingu sósíalista á Norðfirði allt frá æskuárum en tókst að halda pólitískum afskiptum aðgreindum frá störfum sínum að verkalýðsmálum. Þannig hélt hann trausti umbjóðenda sinna óháð stjórnmálaskoðunum þeirra. Síðast er ég
átti tal við Sigfinn sjö vikum fyrir andlát hans
sagði hann mér frá æskuárum sínum
sem ekki voru alltaf dans á rósum. Faðir hans Karl Árnason
var sjómaður ættaður frá Búlandsborgum
í Norðfirði en móðir hans Vigdís Hjartardóttir
úr Landeyjum og bjuggu þau við kröpp kjör í
Nesþorpi. Faðir hans dó er hann var sjö ára
og flutti þá móðir hans suður með systur
Sigfinns, Báru og Kristínu, en honum var komið í
fóstur hjá Jóni Bjarnasyni á Skorrastað
og Soffíu Stefánsdóttur seinni konu hans. Óttaðist
drengur að verða niðursetningur en svo fór þó
ekki og reyndust þau Skorrastaðarhjón honum vel. Þar
eignaðist hann líka góða félaga og minntist
sérstaklega á Ottó Níelsson, sem einnig var
tekinn í fóstur þar í næsta húsi.
Sigfinnur eignaðist traustan lífsförunaut þar sem er eftirlifandi eiginkona hans Valgerður Ólafsdóttir. Hún var kjörbarn Ólafs Þórðarsonar og Helgu Gísladóttur á Norðfirði en dóttir Jónasar Þorsteinssonar skálda og Jóhönnu Jónasdóttur. Jónas faðir Valgerðar dó þegar hún var tveggja ára og aðstæður hennar hennar í æsku þannig um sumt ekki ólíkar Sigfinns. Þau gengu í hjónaband í árslok 1938 og stofnuðu brátt heimili á Hlíðargötu 23 í Neskaupstað þar sem þau bjuggu alla tíð síðan, eignuðust mannvænleg börn og bættu hús og umhverfi. Vala og niðjar eiga óskipta samúð okkar Kristínar. Á mildum útmánuðum
liðins vetrar horfði Sigfinnur til baka og hugurinn hvarflaði
til bernskuáranna þegar hann var í sumardvöl
hjá afa sínum og ömmu á Borgum. Árni
bóndi var við slátt inn með Norðfjarðará
og amman Guðlaug Torfadóttir vísaði sonarsyni sínum
inn tröðina svo að hann gæti hitt afa sinn í
flekknum. En í stað þess að ganga troðna slóð
hélt piltur á brekkuna og fannst í hlíðum
Búlands eftir nokkra leit. Alla tíð síðan
reyndist Sigfinnur Karlsson brekkusækinn og sparaði sig hvergi
við að rétta öðrum hjálparhönd. Samfélagið
við Norðfjörð er svipminna að honum gengnum. Hjörleifur
Guttormsson
|