Sigríður Helgadóttir

fædd 31. okt. 1933 - dáin 4. júní 2003

Það hefur líklega verið vorið 1947 að leiðir okkar Sigríðar Helgadóttur lágu fyrst saman á sundnámskeiði á Eiðum, hún 14 vetra bráðþroska og spengileg og skaut okkur strákrindlum ref fyrir rass jafnt í sundi sem öðrum íþróttum. Þessi glæsistúlka frá Krossi á Berufjarðarströnd tók snemma saman við Heimi Þór Gíslason, Breiðdæling, kennara og þúsundþjalasmið og saman vörðu Sigga og Heimir ævinni á Austurlandi, samhent og óaðskiljanleg í vitund samferðamanna. Þau vantaði ár til að ná að halda upp á gullbrúðkaup og aðeins dauðinn gat stíað þeim sundur.

Sigríður fór kornung á húsmæðraskólann á Staðarfelli með sitt barnapróf en sú skólaganga gagnaðist henni vel fyrir lífið, sjálf var hún jafnfær til hugar og handa og heimilið bar vott um smekkvísi innan stokks sem utan. Gilti þá einu hvort staðið var við lengur eða skemur. Lengst stóð bústang þeirra hjóna að Staðarborg í Breiðdal, þar sem Heimir var skólastjóri 1958-1971, og frá haustinu 1973 á Höfn í Hornafirði þar sem heita Grímsstaðir í hjarta kauptúns. Á Staðarborg voru ungmenni í heimavist og ferðamannaþjónusta að sumarlagi og reyndi ekki síður á húsfreyju en skólastjórann að halda öllu í horfinu. Á milli þessara áfanga, Breiðdals og Hafnar, komu þau við í Danmörku í námsorlofi Heimis og síðan eitt ár í Neskaupstað. Sigríður sá þar meðal annars sumarlangt um skrúðgarð bæjarins en garðyrkja var í senn áhugamál hennar og hluti af heimilishaldi. Mátti sjá árangur þess bæði á Staðarborg og í garðinum að Grímsstöðum.

Sumarvinna þeirra hjóna tók á sig óvenjulega en þjóðlega mynd eftir að þau fluttu til Hornafjarðar. Þau lögðust út á grasafjall að safna heilsustyrkjandi fjallagrösum til búdrýginda og til sölu fyrir erlendan markað. Þessi útgerð þeirra stóð í áratugi á heiðum Norð-Austurlands, lengst af í Jökuldalsheiði austan undir Fjallgörðum en einnig norður á Sléttu. Síðast var Sigríður á grasafjalli í fyrrasumar með bónda sínum þótt mein væri þá farið að segja til sín. Aldrei skyldi gefast upp, það féll ekki að hennar skaphöfn. Grasaferðirnar voru ekki alltaf í ætt við sólarlönd því að stundum hvítnar jörð þar á heiðum um hásumarið. Inn á milli koma svo stundir meira í ætt við skáldskap en veruleika. Fjöllin voru orðin þeim hjónum hálft lífið og eflaust ógleymanleg börnum þeirra sem stundum voru nærri að hjálpa til. Sigríður var samgróin íslenskri náttúru eins og þeir einir geta orðið sem deila með henni blíðu og stríðu. Í góðum samhljómi við það var hún ljóðelsk og lagviss og á vetrum þátttakandi í fjölradda söng af innlifun.

Stjórnmálaskoðanir Sigríðar voru ákveðnar og hispurslausar eins og annað í hennar fari. Hún var sósíalisti að lífsskoðun eins og margir í hennar frændgarði, Bergsveinn í Urðarteigi langafi hennar og voru Helgi faðir hennar og Bjarni Þórðarson ritstjóri og bæjarstjóri í Neskaupstað bræðrasynir. Réttlætiskennd Sigríðar var óbrigðul og ekki fór lágt ef henni var misboðið. Hún var traustur liðsmaður Alþýðubandalagsins á meðan það var og hét og hlúði að náttúruvernd í heimabyggðinni Hornafirði. Græn hugsun og krafa um jafnræði fylgdi henni til hinstu stundar. Nú hverfur hún til þeirrar moldar sem hún var samofin og kunni að yrkja betur en margur annar.

Heimi bónda og börnum þeirra ágætum sendum við Kristín samúðarkveðjur.

Hjörleifur Guttormsson


 


Til baka | | Heim