Í minningu Sigurðar á Kvískerjum
1917–2008

Fyrsta heimsókn mín í Kvísker á miðju sumri 1972 er mér minnisstæð eins og margar síðar. Sigurður var þá fyrir um mánuði sloppinn úr fangbrögðum við Fjallsá, þar sem bíll hans hafði lent út af og annar tveggja pólskra farþega drukknaði. Sigurður komst ásamt hinum út á  þak bílsins, synti þegar í land og hraðaði sér heim í Kvísker eftir hjálp klukkustundarleið og til baka að slysstað með bræðrum sínum. Tókst að bjarga Pólverjanum og nú mánuði síðar stóð Rússajeppinn laskaður í túnfæti og bílstjórinn ekki að fullu búinn að ná sér. Sigurður sagði mér ítarlega frá þessum dapurlega atburði og dró ekkert undan. Þetta er dæmi um þær mannraunir sem hann rataði í á langri ævi, en þekktust er þó björgun hans úr jökli við Breiðamerkurfjall í vetrarbyrjun 1936 og er það minni nú varðveitt á Jöklasýningu á Höfn.
            Sigurður var æðrulaus maður og þegar hann sagði frá sjálfum sér var eins og sögupersónan væri honum óviðkomandi, atburðum lýst eins og þeir færu fram á sviði en sögumaður í hópi áhorfenda. Nákvæmni í frásögninni var slík að reynt gat á þolrif þeirra sem á hlýddu, ég tala nú ekki um kaupstaðarfólk á þeysireið milli landshluta. Þessara eiginleika gætti í ríkum mæli hjá sagnfræðingnum Sigurði og endurspeglast í fjölmörgum ritgerðum sem eftir hann liggja og flestar fjalla um Öræfasveit og Austur-Skaftafellssýslu. Í þeim fléttast saman mannfólkið og síbreytileg náttúran, hvorutveggja Sigurði jafn hugleikið.
            Kvískerjafólk, látið og lifandi, unni umhverfi sínu og var því samgróið, Sigurður þar framarlega í flokki og ókrýndur málsvari út á við. Hann var stofnfélagi í Náttúruverndarsamtökum Austurlands (NAUST) og sat um árabil í stjórn félagsins. Lét sig ekki muna um að sækja fundi austur á land og tók þátt í mörgum skoðunarferðum. En þótt náttúruvernd ætti hug hans var hann jafnframt framkvæmdamaður, vann á jarðýtu við vegabætur og sléttun túna. Ýtustjórinn horfði hins vegar fram fyrir sig og þannig uppgötvaði hann 1954 fornbýlið Gröf austur af Hofi. Löngu síðar átti hann hlut að stofnun Fornleifafélags Öræfa og er uppgröfturinn undir Salthöfða m.a. sýnilegur árangur af starfi þess. Kvískerjasjóður helgaður þeim systkinum er sprottinn af sama lifandi áhuganum á rannsóknum til að að fá að vita meira um fortíð og framtíð.
            Vilmundur Jónsson fyrrum landlæknir ættaður úr Hornafirði fór landleið þaðan suður sumarið 1935 og gisti á Kvískerjum. Eftirminnileg er lýsing hans á heimilinu og barnahópnum. Móðirin Þrúður var heima en Björn bóndi sem oftar austur á sandi að aðstoða ferðamenn við að brjótast yfir Jökulsá. „ ... eru öll börnin einstaklega myndarleg og svo snyrtileg, að þau myndu ekki skera sig úr í Austurstræti.“ Menningarheimilið á Kvískerjum var ekki ríkt að veraldlegum efnum en þeim mun auðugra að þeim gildum sem máli skipta. Systkinahópurinn stóri sem óx upp í garði þeirra Björns og Þrúðar naut þar atlætis sem borið hefur fágætan ávöxt.

Hjörleifur Guttormsson
21. apríl 2008


Til baka | | Heim