Sigurður Hjaltason – minning
(1923–2008)

Saga Hornafjarðar verður ekki skrifuð án þess að Sigurður Hjaltason frá Hólum fái þar verðugan sess. Í 18 ár var hann sveitarstjóri Hafnarhrepps á miklu framfaraskeiði, 1964–1982. Leitun var að samviskusamari embættismanni enda naut Sigurður að best ég vissi óskoraðs trúnaðar í byggðarlaginu. Ég kom oft við hjá honum á skrifstofunni á þessum árum til að ráðgast um málefni byggðarlagsins og Austur-Skaftafellssýslu. Framan af voru það ekki síst málefni náttúruverndar og safna sem ég hafði afskipti af og ræddi um við Sigurð, en eftir að ég var kosinn á þing haustið 1978 og settist í ráðherrastól birtist hann tíðum á skrifstofunni í Arnarhvoli og önnur málefni sveitarfélagsins sátu í fyrirrúmi. Þá fann ég betur en áður hversu vel Sigurður var heima í hvaðeina sem sneri að hagsmunum byggðarlagsins. Höfn var um þetta leyti tengd raforkukerfi landsins með byggðalínu og í samvinnu við Rafmagnsveitur ríksins og iðnaðarráðuneytið var ákveðið að koma upp fjarvarmaveitu með háspennum rafskautakötlum á Höfn. Jafnframt hófust fyrstu athuganir á jarðvarma í sýslunni. Öllum þessum nýmælum sýndi Sigurður mikinn áhuga og sveitarstjórnin stóð þétt að baki honum.
            Eftir sveitarstjórnarkosningarnar 1982 var leitað til Sigurðar um að taka að sér framkvæmdastjórastarf fyrir Samband sveitarfélaga í Austurlandskjördæmi (SSA). Bar sú ósk vott um það traust sem hann hafði áunnið sér og næsta áratuginn var hann í forsvari fyrir sambandið. Verkefni hans urðu fjölþættari en um leið umdeildari á vettvangi sem endurspegla þurfti sjónarmið fulltrúa meira en þrjátíu sveitarstjórna. Reyndi þarna enn frekar en áður á lagni Sigurðar í mannlegum samskiptum og þá prófraun stóðst hann með mikilli prýði. Á fjölmennum fundum og samkomum sem þeim tengdust var Sigurður gleðigjafi og smitandi hlátur hans og létt lund lifir í minningunni frá þessum árum. Hann sameinaði þá list að standa fast á sínu en halda þó opnum leiðum til málamiðlana. Það auðveldaði honum hlutverkið að bindast ekki formlega stjórnmálaflokki þótt engir færu í grafgötur um hverjar skoðanir hans voru á helstu þjóðmálum.
            Eiginkonu Sigurðar, Aðalheiði Geirsdóttur frá Reyðará, kynntist ég í æsku þegar hún var nemandi og síðar kennari við Húsmæðraskólann á Hallormsstað. Systur hans Sigurborg og Halldóra, síðar húsfreyja á Seljavöllum, komu þar einnig inn á sviðið. Þessar konur voru hver á sinn hátt kyndilberar mennta og menningar, Aðalheiður skáldmælt og hagvirk og Sigurborg leikari af guðs náð. Sigurður Hjaltason átti sterkar rætur í Nesjum og Lóni en heimili hans og Aðalheiðar var lengst af á Höfn. Við útför Sigurðar kallast á Ketillaugarfjall og Reyðarártindur.

 

Hjörleifur Guttormsson


Til baka | | Heim